Loading

BÖRNIN OKKAR

Ég á tvö börn, dóttir mín er 4 ára og sonur minn er tæplega þriggja mánaða. Dóttur mína á ég með fyrrverandi kærasta og erum við með þannig skipulag að hún er viku hjá mér, unnusta mínum og syni og svo hina vikuna á móti hjá pabba sínum og kærustunni hans. Það gengur alveg ótrúlega vel og þó að það sé sárt og erfitt að missa þessa viku úr tel ég það vera rétt hennar að fá að umgangast föður sinn jafn mikið og móður sína. Um leið og það var ljóst að sambandið okkar myndi ekki ganga upp tókum við þá ákvörðun að hvað sem myndi gerast væri það okkar markmið og skylda sem foreldra að veita dóttur okkar allt það sem hún þarf til þess að vera hamingjusöm. Að sjálfsögðu erum við mannleg og það verða alltaf einhverjir brestir þegar sambandsslit verða en ég held ég geti fullyrt að við höfum aldrei misst sjónar af þessar ákvörðun. Við höfum náð að vera vinir og alla tíð hjálpast að, þrátt fyrir að sambandi okkar sé lokið. Við förum saman með hana til læknis, höldum sameiginlegar afmælisveislur, hjálpum hvort öðru með pössun, ræðum hlutina saman og sýnum hvort öðru virðingu. Um daginn kom dóttir mín heim með mynd sem hún hafði teiknað af fjölskyldunni sinni og þar vorum við öll sex saman, brosandi undir blikkandi jólaseríu.

Að því gefnu að báðir foreldrar séu hæfir og ástríkir í garð barnanna sinna tel ég það vera þeirra rétt, sem og barnsins að fá að umgangast þá báða í jöfnum hlutföllum. Mér finnst ég allt of oft heyra grimmilegar sögur um forræðisdeilur þar sem börnin eru oftar en ekki föst í miðjunni og vita ekkert í hvorn fótinn þau eiga að stíga. Í þeim málum getur ekki annað verið en að foreldrarnir hafi misst sjónar á því að það eru þau sem eru að skilja, en að við börnin sín skilur maður ekki. Tilgangur minn með þessum skrifum er fyrst og fremst til þess að hvetja með virðingu og vinsemd alla þá sem standa í sambandsslitum eða skilnaði og eiga börn, að hugsa fyrst og fremst um þeirra hag og láta ekki óánægju og gremju hafa áhrif á ákvörðunartökur þegar kemur að málum tengdum þeim. Þið eruð þrátt fyrir allt í sama liðinu, liði barnanna ykkar.

– – –

Sandra Hrafnhildur Harðardóttir er fædd 1985 og á ættir að rekja til Þingeyjarsýslu. Hún ólst upp á Seyðisfirði, þeim fallega stað og stundar nám við Háskóla Íslands við mannfræði. Hún stofnaði góðgerðarframtak sem ber nafnið Vonarnisti fyrir ári síðan. Hún á tvö börn; hina fjögurra ára Amelíu Rún og lítinn þriggja mánaða dreng.

X