Loading

BRJÓSTAGJAFAVIKAN 2013

Alþjóðlega brjóstagjafavikan verður haldin hátíðleg á Íslandi dagana 16. – 22. september 2013. Þetta er sjötta árið í röð þar sem haldið er upp á vikuna með umfjöllun um brjóstagjöf og vakin athygli á mikilvægi hennar.

Þema vikunnar er „Stuðningur við brjóstagjöf: frá móður til móður“ og beinum við sjónum okkar að mikilvægi stuðningskvenna og annarra er veita stuðning á jafningjagrundvelli. Þetta er í samræmi við alþjóðlega þemað ,,mother to mother”. Stuðningskonur eru konur innan Íslensku brjóstagjafasamtakanna sem setið hafa námskeið um brjóstagjöf og ráðleggingar hvað það varðar og eru tilbúnar til að miðla þekkingu sinni og reynslu á jafningjagrundvelli.

Oft gengur brjóstagjöfin vel fyrstu vikurnar en það er ekki algilt, ýmiskonar vandkvæði geta komið upp og algengt að brjóstagjöf sé hætt á fyrstu vikum eða mánuðum. Vandkvæði geta einnig verið upplifun mæðra af brjóstagjöf þó móðirin haldi brjóstagjöf áfram.

Á þessum tíma er jafningjastuðningur, stuðningur frá móður til móður mjög mikilvægur. Þessi stuðningur verður oft til þess að viðhalda brjóstagjöf. Fyrr á tíðum var sá stuðningur innan fjölskyldunnar en með breyttri samfélagsmynd leita konur nú meira eftir stuðningi í mömmuklúbbum, á netinu, í gegnum heilsugæsluna sem og hjá fjölskyldu og vinum. Einnig eru makar mjög mikilvægur hluti af stuðningi við brjóstagjöf.

Í Íslensku brjóstagafasamtökunum eru stuðningskonur sem veita aðstoð og áreiðanlegar upplýsingar um allt sem tengist brjóstagjöf. Stuðningskonur eru aðgengilegar í síma, tölvupósti og í lokuðum Facebook hóp. Þar er líka góður gagnabanki í gömlum svörum. Stuðningskonur eru með vikulega hittinga þar sem allir eru velkomnir í spjall. Það að geta rætt við einhverja sem hafa verið í svipuðum sporum og maður sjálfur getur verið ómetanlegt og gott að miðla reynslu og heyra í öðrum. Lykillinn að farsælli brjóstagjöf er oft góður stuðningur við móður heima og í samfélaginu.

Til að gerast stuðningskona þarf að sitja námskeið á vegum samtakanna og í tilefni vikunnar verður haldið námskeið dagana 17. og 21. september. Námskeiðið er liður í annars mjög viðburðaríkri og skemmtilegri dagskrá.

Ljósmyndatakan, þar sem konum með barn á brjósti er boðið að koma í myndatöku, hefur verið vinsælasti viðburðurinn. Anna Douglas hjá Stúdío Douglas hefur séð um að taka myndirnar undanfarin ár og verður svo aftur nú. Fræðsluerindið verður á sínum stað.

Fjöldagjöf er fastur liður í brjóstagjafavikunni, hún er venju samkvæmt á föstudaginn kl. 15 á Kaffitár í Borgartúni. Með fjöldagjöfinni viljum við vekja athygli á að brjóstagjöf verður að vera sjálfsögð, það má ekki neyða konur út í horn eða inn á klósett á þessum mikilvæga tíma. Brjóstagjöf á að vera jafnsjálfsögð og velkomin á almannafæri og öll önnur matarhefð. Við hvetjum konur til að fjölmenna þangað og sýna stuðning í verki.

Með kærri kveðju,
skipuleggjendur

Fyrir nánari upplýsingar og viðtöl má hafa samband við
Magneu Arnardóttur s. 662-0271 eða á studningskona@gmail.com

Dagskrá 2013

Þriðjudagurinn 17. september

  • Stuðninskvennahittingur – kl 10:30 á Kjarvalsstöðum
  • Stuðningskvennanámskeið fyrri hluti – kl 18-21 í Lygnu, fjölskyldumiðstöð Síðumúla 10

Miðvikudagurinn 18. september

  • Fræðsluerindi – 20:30 í Lygnu fjölskyldumiðstöð Síðumúla – nánari upplýsingar síðar

Fimmtudagurinn 19. september

  • Brjóstagjafa – ljósmyndataka í Stúdíó Douglas – kl 12-15 – 4000kr myndatakan. Skráning á brjostagjafavika@gmail.com

Föstudagurinn 20. september

  • Fjöldagjöf – kl 15 á Kaffitár í Borgartúni

Laugardagurinn 21. september

  • Stuðningskvennanámskeið seinni hluti – kl 9-13 í Lygnu, fjölskyldumiðstöð Síðumúla 10

 

Brjóstagjafavikan á Facebook

X