Loading

BRJÓSTAGJÖF ER BARÁTTA

Brjóstagjöf er eitt það fallegasta sem eg veit um. Nándin sem myndast á milli móður og barns er ólýsanleg. Sú tilfinning þegar ég legg barnið mitt á brjóst er ólýsanleg og barnið nýtur þess jafn mikið og ég. Fyrir suma er brjóstagjöf lítið mál en fyrir aðra er hún andskotans puð og barátta, afsakið orðabragðið.

Eins og ég kom inná í fyrsta pistlinum mínum að þá puðaði ég í tvo mánuði með mína brjóstagjöf. Ég fékk ítrekaðar stíflur, sveppasýkingar og sár.

Sárin voru orðin það slæm á tímabili að það blæddi úr þeim, það versta var samt sem áður þegar dóttir mín ældi blóði sem hún hafði verið að sjúga úr mínum sárum. Þetta einfalda fyrirbæri að leggja barnið sitt á brjóst var allt í einu orðið svo kvalarfullt og flókið eitthvað. Þegar ég var nýbúin að gefa var ég strax farin að kvíða fyrir næstu gjöf.

Það vill til að ég er ein sú ákveðnasta manneskja sen ég veit um og ég er svo þakklát fyrir að hafa þraukað þessa tvo mánuði vegna þess að það sem á eftir kom var bara æðislegt. Í dag er þetta orðið einfalt og þæginlegt, eg einfaldlega fletti niður um mig og skelli dömunni á.

Ég tek ofan af fyrir þeim konum sem gefast ekki upp. Það þarf mikinn styrk til þess að komast í gegnum svona basl og þess vegna skil ég líka þær konur sem gefast upp. Það er engin skömm við það að geta ekki gefið barninu sínu brjóst. Bara fyrir baráttuna við brjóstagjöfina ertu orðin góð móðir vegna þess að þú hefur gert allt til þess að sjá fyrir því að barnið þitt fái það besta og stundum bara gengur það ekki upp.

Annað sem mig langar að koma inn á eru kröfur samfélagsins til brjóstagjafar. Mikið finnst mér það sérkennilegt að fólk skuli voga sér að skipta sér af brjóstagjöf, þessu sambandi sem er BARA á milli móður og barns. Hver kannast ekki við fullyrðingarnar „Bíddu ha ertu ekki með barnið á brjósti?“ eða „ertu ennþá með barnið á brjósti?“.

Það kemur engum og þá meina ég engum við annarra manna brjóstgjöf. Ef ég vil hafa barnið mitt á brjósti til tveggja ára aldurs að þá mun ég gera það án þess spyrja annað fólk að því. Þessi félagslegu rammar sem við höfum sett okkur eru hreint út sagt agalegir og því miður eru allt of margir sem falla undan þessum þrýstingi. Það eru bara einfaldleg ekki allir eins. Sumir geta ekki eitthverja hluta vegna ekki gefið brjóst og aðrir kjósa að gera það lengi en það er alltaf manns eigin ákvörðun. Látum ekki samfélagið segja okkur hvernig við eigum að vera heldur skulum við sjálf víkka rammann með okkar sýnilegu hegðun.

– –

Kristín Greta er tvítugur Bolvíkingur og á fimm mánaða stelpu. Hún er sem stendur í fæðingarorlofi en stefnir á nám í haust. Hún stefnir á að verða ljósmóðir.

– –
Vilt þú deila reynslu þinni eða gerast Mömmubloggari? Sendu okkur þá post á thora@foreldrahandbokin.is.

X