Loading

BRJÓSTAGJÖF Í BLÍÐU OG STRÍÐU

Pistill eftir Ingibjörgu Baldursdóttur, hjúkrunarfræðing og brjóstagjafaráðgjafa:

Margir verðandi foreldrar nota tímann á meðgöngunni til að undirbúa sig vel undir þessi nýju hlutverk sín sem þau eiga í vændum. Það gera þau með því að lesa og skoða á netinu allt sem þau komast yfir um fæðinguna og svo brjóstagjöfina og líf barnsins eftir fæðingu. Það eru velflestar íslenskar mæður sem að ætla sér að hafa barnið sitt á brjósti. Ég held að það sé af því að við erum almennt vel upplýst um kosti brjóstagjafar fyrir heilsu barnanna okkar og vitum að það er besti kosturinn að gefa þeim brjóstamjólk.

Þetta er allt spennandi og samt er það blandað vissum kvíða yfir því hvernig þetta komi allt til með að ganga. Það er enginn fullmótaður í foreldrahlutverkinu strax við fæðingu. Þetta er nýtt og framandi og það þarf að læra á allt sem viðkemur þessum nýja einstaklingi. Það er óneitanlega kostur að sækja námskeið um brjóstagjöf á meðgöngunni. Það veitir verðandi foreldrum meira öryggi í því sem koma skal vegna þess að með því að vita hvað er í vændum, fyllast foreldrarnir meira öryggi þegar í aðstæðurnar er komið og með því aukast líkurnar á því að brjóstagjöfin gangi vel. Með því að vita hverju megi eiga von á fyrstu sólarhringana, hversu mikilvægt það er að hafa barnið sem mest í snertingu við móðurina, þá eykst einnig öryggið í því að lesa í merki barnsins um hvenær það vill drekka og hvenær það er þreytt og vill hvíld.

Fyrstu sólarhringarnir geta verið erfiðir og kannski ekki alveg eins og fólk á von á. Fyrst eftir fæðinguna er barnið oftast vel vakandi og ef allt hefur gengið vel þá drekka flest börn fyrstu gjöfina á fyrsta klukkutímanum. Eftir það sofnar barnið en það skiptir miklu ef hægt er, að hafa barnið sem mest þar sem greiðastur aðgangur er að brjóstinu, ofan á mömmunni, húð barnsins við hennar húð. Þetta er kölluð kengúru umönnun en það þekkist hjá öllum spendýrum að hafa afkvæmi sín nálægt sér fyrstu sólarhringana. Ef að aðskilnaður barns og móður er óhjákvæmilegur eftir fæðinguna eins og í erfiðum veikindum eða hjá fyrirburum, skiptir samt miklu að barnið fái eins fljótt og hægt er að vera í húðsnertingu við annað foreldra sinna. Þetta gefur jafnari hitastjórnun, jafnari hjartslátt og þau komast fyrr á brjóst, þyngjast meira og eru fljótari að jafna sig á þeim veikindum sem hrjá þau til að geta útskrifast heim til foreldranna.

Annar sólarhringurinn í lífi barnsins er stundum strembinn. Barnið sem var svo tillitsamt að sofa mikið eftir fæðinguna, vaknar nú fyrir alvöru og áttar sig á því að vera komið úr hlýja og dimma umhverfinu í leginu, út í bjartan heim fullan af áreytum! Þau vilja alltaf vera að drekka og móðurinni virðist ekkert vera að koma úr brjóstunum. Barnið er þó að fá samanþjappaða næringu en í litlum skömmtum, fyrstu gjafir af broddinum eru ekki nema 2-3 teskeiðar! Magaplássið er heldur ekkert mikið meira en eykst dag frá degi. Magaplássinu má líkja við stærð á heslihnetu fyrsta daginn en valhnetu á tíunda degi! Þau eru líka fædd með varaforða af vökva í líkamanum til að mæta þessum fyrstu sólarhringum þegar mjólkurframleiðslan er ekki komin á fullt skrið.

En hvernig er hægt að meta hvort barnið er að fá nóg þessa fyrstu sólarhringa? Það er hægt að meta með því að fylgjast með útskilnaði. Það er hvað er barnið að pissa og kúka oft? Það er miðað við nokkurn veginn einu sinni fyrsta daginn (piss og kúkur) og svo eykst dag frá degi (tvisvar á dag á öðrum degi) o.s.frv. Fæstar ljósmæður vigta börnin í heimavitjunum fyrstu dagana heldur eru að skoða þennan útskilnað til að meta hvort að barnið sé að fá nóg. Ef að minnsti grunur er á að svo sé ekki, má vigta barnið fyrir og eftir gjöf til að sjá nákvæmlega hvað þau fá mikið. Oftast fara börnin svo í læknisskoðun á fimmta degi og eru þá vigtuð í fyrsta sinn eftir fæðinguna. Það er ekki óeðlilegt að börn léttist eftir fæðinguna en litið er á hversu mikið þetta þyngdartap er til að meta hvort að barnið sé að fá nægilega næringu. Það er alls ekki við því að búast að barn þurfi að hafa náð fæðingarþyngd í fimm daga skoðun og þau geta verið allt að tvær vikur að ná henni án þess að nokkuð þurfi að vera að.

Það skiptir svo miklu máli að fá góðan stuðning þessa fyrstu daga, frá sínum nánustu, frá heilbrigðisstarfsfólki og öðrum og sem betur fer erum við mjög vel sett hér á landi með hæfum fagaðilum. Mæður, notið ykkur þetta fróða fólk í kring um ykkur. Leitið aðstoðar ljósmæðra og brjóstagjafaráðgjafa og annarra við að leggja barnið á brjóst í upphafi því að það skiptir svo miklu máli að barnið læri að taka brjóstið rétt. Ég ráðlegg líka foreldrum að sækja námskeið um brjóstagjöf og umönnun nýburans fyrir fæðingu, því að það veitir ykkur aukna þekkingu og með því kemur aukið öryggi.

Ef að upp koma vandamál skiptir svo miklu máli að leita sér strax hjálpar, það er ekki verið að ónáða fagfólk með því – til þess erum við! Lítil vandamál þurfa ekki að verða stærri ef að þau eru leyst strax en með því að bíða, vinda þau stundum upp á sig og verða erfiðari viðureignar, virðast jafnvel óyfirstíganleg. Það er svo margt hægt að gera til að hjálpa. Sumar mæður reyna þó mikið og fá hjálp en það gengur ekki samt, þá hafa þær allavega reynt! Enginn er verri móðir þó að hún geti ekki haft barnið sitt á brjósti. Brjóstagjöf er ein leið til að næra barnið sitt en ekki sú eina. Það eru margar mæður sem ég hef rætt við sem taka þessa ákvörðun ákaflega nærri sér og það er skiljanlegt. Við höfum ákveðnar væntingar fyrirfram um að brjóstagjöfin komi til með að ganga. Fyrstu fjórar vikurnar eru oft erfiðastar, ef að móðirin kemst í gegn um þær eru auknar líkur á því að þetta eigi eftir að ganga. Gefum brjóstagjöfinni allan þann tíma og ást og oft á tíðum áreynslu sem til þarf! Það er þess virði að þrauka, dásamlegur tími fylgir oft í kjölfarið. Ef það gengur ekki – eyðum ekki tíma og orku í að sökkva okkur í leiða yfir því. Barnið þarf á mömmu sinni að halda og það að vera elskað. Það er það sem skiptir mestu máli og það geta allir veitt barni sínu hvort sem það er á brjósti eða ekki!

Ingibjörg Baldursdóttir er hjúkrunarfræðingur og IBCLC brjóstagjafaráðgjafi.
Hún vinnur sjálfstætt með ráðgjöf og námskeið um brjóstagjöf og umönnun ungbarna. Jafnframt því er hún að ljúka meistaranámi í hjúkrun í HÍ með áherslu á sérhæfingu í brjóstagjöf. Ingibjörg heldur jafnframt út Facebook síðunni Brjóstagjöf – meira en bara næring þar sem hægt er að fá ráðgjöf frá Ingibjörgu um allt er viðkemur brjóstagjöf og umönnun ungbarna.

Ingibjörg sér einnig um námskeiðið Brjóstagjöf og umönnun barnsins hjá Björkinni.

X