Loading

BRJÓSTAGJÖF, MJALTARVÉLAR OG PELAR!

Ég ætla að tala aðeins um brjóstagjöf því hún hvílir þungt á mér þessa dagana.

Mig hefur alltaf langað að hafa börnin mín á brjósti og núna með þriðja barni átti þetta sko að takast. “Third time’s the charm” eins og sagt er.
Með fyrsta barnið mitt var ég ung og óþolinmóð. Ég reyndi brjóstagjöf í mánuð og fannst það alveg hræðilegt. Ég vildi að pabbinn gæti hjálpað með gjafirnar, mér var illt í brjóstunum, blæddi úr geirvörtunum og þetta var í alla staði hræðileg reynsla. Ég gerði þetta í mánuð bara eiginlega til að geta sagt að ég hefði reynt en var svo ánægð þegar ég fór að gefa pela. Mér fannst það svo miklu auðveldara og var ánægð að þurfa ekki að vera með þetta brjóstagafarvesen lengur.

Á þessum tíma hugsaði ég mjög mikið um alla hlutina sem ég gat EKKI gert með barn á brjósti … ég gat ekki farið og fengið mér í glas með stelpunum, ég gat ekki sofið á næturnar og látið pabban gefa og meira og meira, en aldrei hugsaði ég um hverju ég væri að missa af með að vera ekki með hana á brjósti og sá á þeim tíma ekki eftir ákvörðunni að hætta.
Þegar yngri stelpan kom í heiminn var ég orðin aðeins eldri og þá langaði mig strax að hafa hana á brjósti. Það væri betra fyrir hana að fá brjóstamjólk og betra fyrir mig að losa mig við auka forðan sem safnast upp við meðgöngu. Ég hlakkaði líka til að upplifa loksins þetta æðislega sambandi sem kemur við að hafa barn á brjósti.

Hún var á brjósti í þrjá mánuði og allan tíman grét hún og grét. Hún var með í maganum, svaf illa og var mjög erfitt ungbarn. Ég hélt ég væri með næga mjólk en hún hékk á brjóstinu á tveggja tíma fresti. Þetta hafði góð áhrif á aukakílóin mín og komst ég snemma í sömu þyngd og fyrir meðgöngu en það reyndi mjög á mig að sofa svona lítið. Þegar hún var um þriggja mánaða var mér sagt að hún væri ekki að þyngjast sem skildi og væri kannski ekki að fá nóg. Þegar þyngdin jókst ekki þá var ég beðin um að byrja að gefa henni pela með og viti menn hún fór að sofa betur en vildi ekki brjóstið lengur. Svo ekki naut ég brjóstagafarinnar mikið í það skiptið og var hálf ánægð að pelinn væri kominn aftur. Ég var samt ánægð að hafa getað haldið brjóstagjöfinni þetta lengi.

Þegar ég komst að því að þriðji fjölskyldumeðlimurinn væri á leiðinni var ég svo ánægð enda núna kunni ég sko á þetta og brjóstagjöfin yrði ekkert mál. Mömmur í kringum mig sögðu mér sögur um langa og ánægulega brjóstagjöf og það var það sem ég vildi.
Í 20 vikna sónarnum komst ég að því að litli guttinn minn er með fæðingagalla og ætti eftir að vera fastandi í nokkrar vikur. Ég var svo miður mín enda seinasta barnið og síðasti sénsinn til að hafa eðlilega og langa brjóstagjöf. En ég spurðist fyrir og komst að því að margar mæður hefðu náð að halda brjóstamjólkinni í nokkrar vikur á meðan barnið þeirra var á vökudeild svo ég ákvað að það skildi gera.. ég ætlaði að halda mjólkinni.

Hann fæddist 30 september og ég byrjaði strax á mjaltarvélinni. Ég var með mjaltarvél uppá spítala og var búin að kaupa aðra til að hafa heima (það er líka hægt að leigja hjá Móðurást). Ég mjólkaði mig heiðalega á þriggja tíma fresti þangað til mjólkin var vel komin þá fór ég að vera aðeins latari og hætti að vakna á næturnar til að mjólka mig. En þetta tókst vel og ég náði að halda henni vel uppi. Þegar sonur minn var orðinn 3ja vikna mátti hann fá að drekka í fyrsta sinn og guð hvað honum fannst það æðislegt. Hann mátti bara fá 10 ml í einu á 3ja tíma fresti svo ég varð að mjólka mig í um 30 mín, vikta hann, setja hann á brjóstið í nokkrar mínútur og vikta hann aftur til að passa að hann fengi ekki of mikið. En það var svo þess virði, hann tók svo vel, meiddi mig ekki neitt, og hann og ég vorum bæði svo ánægð eftir brjóstagjafatíman okkar. Hægt og rólega hækkaði skammturinn hans upp í 30 ml á 3ja tíma fresti og þá setti ég hann alltaf fyrst á brjóstið og mjólkaði svo afanginn úr. Ég leit alltaf fram í tímann og hlakkaði til að bráðum fengi hann að fara í fulla gjöf, bráðum yrði öll þessi vinna búin og hún væri svo þess virði.
Eftir hverja aðgerð varð hann að vera fastandi í nokkra daga. Það sem átti að vera ein aðgerð, breyttist í tvær aðgerðir sem breyttust í þrjár aðgerðir og núna erum við búin með fjórar og ekki enn búin.

En eftir hverja aðgerð, eftir að hafa verið fastandi fékk hann pela til að byrja með svo þau gætu fylgst með nákvæmlega hversu mikið hann var að fá. Svo byrjaði vinnan … að venja hann AFTUR á brjóstið. Í hvert sinn sem ég varð að venja hann á brjóstið aftur öskraði hann og gargaði, klóraði og sló mig og mér leið eins og ég væri ömulegasta mamma í heimi að vera að troða brjóstinu upp í barn sem vildi það ekki. En á endanum tók hann brjóstið í sátt og aftur varð ég ánægðasta mamma í heimi og elskaði þennan tíma. Eftir þriðju aðgerðina fengum við að fara heim í leyfi yfir jólin. Núna ætlaði ég sko að hætta í þessari mjaltarvel og leyfa honum að drekka eins mikið og hann vildi. Fyrstu dagarnir voru fínir en af því hann er með næringu í æð þá var hann ekki með mikla lyst á mjólk og var helst að fá að drekka svo hann myndi ekki gleyma hvernig á að borða. Eftir nokkra daga heima minkaði og minkaði hversu mikið hann vildi vera á brjóstinu og aftur varð ég að leita til mjaltarvélarinnar til að halda mjólkinni við og í miðjum janúar var hann hættur að vilja drekka á brjósti né pela. Ég náði með mikilli þjálfun að fá hann aftur á brjóstið en þá var aftur komið að aðgerð.

Núna eftir fjórðu aðgerðina og hann næstum orðin fjagra mánaða gamall vildi hann ekki drekka pela né brjóst. Hann fékk brjóstamjólk í sondu og saug snuð. Ég hélt áfram á mjaltarvélinni og reyndi á þriggja tíma fresti að setja hann á brjóst en hann varð bara reiður og slóst til og grét. Með pelanum náði ég að plata pínu mjólk ofan í hann og reyndi meira að segja að sprauta mjólk með fram snuðinu svo hann gæti lært að kingja aftur. Eftir mikla vinnu var hann farinn að taka pelann en hann vildi ekki sjá brjóstið.

Daginn sem hann varð fjögurra mánaða þann 30. janúar tók ég þá ákvörðun að hætta á mjaltavélinni. Það er mikilvægara að barnið mitt geti nærst eðlilega í gegnum munn og hætt að nota sondu. Þessi ákvörðun var mjög erfið, ég er búin að þrauka út í fjóra mánuði með að mjólka mig og hef beðið og beðið eftir deginum þar sem ég gæti loksins verið með hann eingöngu á brjósti en sá dagur kom aldrei. Ég er að hálfu leiti stolt af mér fyrir að halda þetta út svona lengi en partur af mér er vonsvikin að ég hafi gefist upp, vonsvikin úti læknana fyrir að hafa þurft svona margar aðgerðir, vangaveltur hvort ég hefði átt að gera eitthvad öðruvísi eða reynt meira.

Góðu fréttirnar eru að ég átti góðar stundir með hann á brjósti og á núna góðar stundir með hann á pela því hann stendur sig svo rosalega vel með pelan núna að við erum næstum tilbúin að vera sondulaus. Frystirinn er fullur af frosinni brjóstamjólk og hann stækkar og stækkar.

Ég tel mig geta sagt með þessari reynslu minni að ég reyndi mitt besta og auðvita er brjóstagjöf ekki allt og þurrmjólkin sem er til núna er mjög góð og pelinn ekki slæmur. Ég held að við konur séum verstar á okkur sjálfar og í sjálfum sér komst ég í gegnum þetta á sjálfselskunni því ÉG vildi og ÉG ætlaði.

Dísa ☺

– – –
Ég heiti Hjördís en er kölluð Dísa. Ég er 27 ára, gift og á tvær litlar dömur sem eru fjögurra og sex ára og einn lítinn gutta sem fæddist í enda september.
Ég er Montessori kennari og lærði í Bandaríkjunum. Ég vinn í leikskóla í Reykjavik sem sérhæfir sig í börnum með sérþarfir. Áhugamál mín eru góður félagskapur og börn og uppeldi.
– – –
Aron Raiden fæddist þann 30 september 2011. Það hafði komið í ljós í 20 vikna sónarnum að hann væri með fæðingargalla sem heitir gastroschisis en nánar má lesa um hann í fyrsta blogginu mínu 20 vikna sónar.
Aron dvaldi á vökudeild til 15 desember 2011 en hefur síðan þá verið niður á barnaskurðdeild barnaspítala Hringsins. Hann hefur þurft að fara í fjórar stórar aðgerðir, margar rannsóknir og þurft að hafa næringu í æð alla sína ævi.
Í þessu bloggi mun ég fara í gegnum sjúkdómsgreininguna, dvölina á vökudeildinni, brjóstagjöfina vs. mjaltarvél, muninn á vökudeild og barnadeild, hvað gerist þegar heim er komið.

X