Loading

Chrissy Teigen viðurkennir að hafa þjáðst af fæðingarþunglyndi

Talið er að 10-14% kvenna fái fæðingarþunglyndi eftir barnsburð og oftar en ekki er það mjög falið. Konan upplifir oft mikla skömm yfir líðan sinni og á það til að einangra sig frá umheiminum og vanlíðanin stigmagnast. Hvernig á manni að geta liðið svona eftir að hafa eignast barn? Eiga ekki allir að vera í gleðivímu?

Reyndin er hins vegar önnur og það er gríðarlega mikilvægt að mæður taki höndum saman og opni sig um reynslu sína og upplifun því eins og við vitum þá eyðir það fordómum að opna umræðuna.

Það krefst oft á tíðum hugrekkis að stíga fram en það er svo gríðarlega þakklátt því það hjálpar öðrum. Við horfum líka á aðrar konur og getum ekki ímyndað okkur annað en að allt sé fullkomið hjá þeim. Þannig leið mér að minnsta kosti þegar ég fylgdist með Chrissy Teigen sem er ein af mínum uppáhalds. Teigen er með hárbeittan húmor og hikar ekki við að deila öllu mögulegu með fylgjendum sínu.

Það kom því flestum í opna skjöldu þegar hún greindi frá því í nýjasta tölublaði Glamour (ekki því íslenska þó) að hún hafi verið greind með fæðingarþunglyndi og kvíða í desember. Það hafi verið gríðarlegur léttir að fá greininguna því hún hafi ekki skilið eigin líðan og af hverju allt var ekki í himnalagi.

Í viðtalinu segir hún meðal annars:

„Mér var illt í mjóbakinu, öxlunum – jafnvel úlnliðunum. Ég hafði enga matarlist. Stundum borðaði ég ekki bita í tvo daga og þið vitið hvað ég elska mat. Ég var líka mjög stutt í spunann við alla og það hafði mikil áhrif á mig.

Flesta daga sat ég á sama stað í sófanum. Ég hafði sjaldnast orku til að fara upp á efri hæðina þar sem svefnherbergið okkar er. John (eiginmaður Teigen) svaf oftast á sófanum með mér. Ég var farin að geyma sloppa og kósíföt inn í búri svo ég þyrfti ekki að fara upp þegar John fór í vinnuna. Ég brast líka oft í grát upp úr þurru.

Ég skildi ekki af hverju ég var svona óhamingjusöm. Það hlaut að vea út af þreytu eða af því að ég var ekki fyndin og skemmtileg lengur. Kannski á ég bara að vera mamma en ekki fyndin og sniðug.

Fyrir jólin fór ég til læknisins míns í skoðun. John fór með mér. Ég leit á lækninn minn og brast í grát. Ég var orðin svo þreytt á að vera verkjuð, á því að sofa á sófanum. Að vakna stöðugt allar nætur. Á því að kasta stöðugt upp. Á því að taka þetta allt úr á röngu fóki. Á því að hafa misst getuna til að njóta lífsins. Hitta ekki vini mína. Hafa ekki orku til að fara út með dóttur mína í göngutúr. Læknirinn minn tók fram bók og fór að telja fram einkenni. Ég sagði bara passar, passar og passar og fékk greininguna: fæðingarþunglyndi og kvíði.

Ég fór að taka kvíðastillandi lyf sem hjálpuðu. Ég sagði vinum og ættingjum frá því hvað var að gerast. Mér fannst fólkið mitt eiga skilið að fá útskýringu og ég kann ekki aðra aðferð en að láta vaða. Smám saman varð auðveldara að segja það upphátt. Ég á ennþá erfitt með að segja „ég þjáist af fæðingarþunglyndi” því orðið þunglyndi hræðir fólk. En kannski ætti ég bara að segja það nógu oft. Það eyðir kannski fordómunum.

Ég horfði daglega á Lunu (dóttur hennar) og dáðist að henni. Þess vegna grunaði mig ekki að þetta væri fæðingarþunglyndi. Ég hélt líka að þetta gæti ekki komið fyrir mig. Ég lifi frábæru lífi. Fæ alla þá hjálp sem ég þarf: John, mamma mín (sem býr með okkur), meira að segja barnfóstra. En fæðingarþunglyndi fer ekki í manngreinarálit. Ég hafði enga stjórn og það er líka ástæða þess að það tók mig svo langan tíma að tjá mig: mér fannst ég sjálfselsk og asnaleg að segja upphátt að ég ætti erfitt. Mér líður ennþá stundum þannig.

Fullt af fólki um heim allan er í sömu aðstæðum og ég en hafa enga hjálp og enga fjölskyldu. Jafnvel engan aðgang að læknaþjónustu. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það væri ef ég hefði ekki getað leitað til læknis. Ég er miður mín að vita til þess að við erum með forseta sem vill svipta konur aðgang að heilbrigðisþjónustu. Ég lít í kringum mig og stundum skil ég ekki hvernig fólk fer að þessu. Ég hef aldrei borið jafn mikla virðingu fyrir mæðrum en ég geri nú. Sérstaklega mæðrum með fæðngarþunglyndi. Ég er að tjá mig núna því ég vil að fólk viti að þetta getur komið fyrir alla og ég vil ekki að neinn upplifi skömm eða að þeir séu einir í heiminum.”

Hér má lesa viðtalið í heild sinni.

Ljósmyndir úr Glamour.

X