Loading

CROSSFIT FYRIR BÖRNIN

Ég er ein af þeim sem leyfi börnunum mínum að prófa ýmislegt í leit þeirra að tómstundum og/eða íþróttum sem þau kynnu að hafa eða fá áhuga á. Elsta dóttir mín fann sig ekki né fékk hún áhuga á því sem hún prófaði. Ég held ég geti sagt að hún hafi prófað mjög margt eins og dans, fótbolta, handbolta, sund, skíði, söng, leiklist, skátastarf, golf og frjálsar íþróttir. Ekkert af þessu hreif hana né vakti áhuga og venjulega var það ég sem þurfti að sjá til þess að hún mætti og ósjaldan hálfmútaði henni til að vera með eins og hinir. Ég er nefnilega á þeirri einbeittu skoðun að það sé hollt og gott fyrir öll börn að eiga áhugamál og stunda reglulega hreyfingu. Eflaust þekkja fleiri foreldrar þessa stöðu þegar börn finna sér ekki hreyfingu sem þeim finnst skemmtileg.

Ég var nærri því að gefa upp alla von um að dóttir mín fyndi sér áhugamál sem fæli í sér hreyfingu og hefði gott og gaman af þegar ég rakst á auglýsingu frá CrossFit Reykjavík sem mér leist mjög vel á.

Ég skráði dætur mínar, þær tvær eldri, á námskeið og strax fyrstu vikuna fann ég að þarna voru þær komnar á stað þar sem þeim leið vel, enda einstaklega vel tekið á móti þeim. Ég áttaði mig fljótt á því að nú þurfti ég ekki lengur að tuða í þeim að mæta á æfingar − nú fóru þær sjálfviljugar og pössuðu sjálfar að missa ekki úr æfingu.
Í crossfit eru allir jafnir. Börnin mæta á eigin forsendum og mjög vel er tekið á móti þeim. Öll gera þau æfingar við hæfi án þrýstings eða pressu. Þarna eru engin mót haldin og þess vegna myndast enginn metingur innan hópsins. Ég hef því miður orðið vör við allt of mikinn þrýsting og meting í hinum ýmsu íþróttum barna hér á landi. Metingurinn verður oft til þess að ákveðinn hópur barna missir áhugann og hættir þegar pressan á keppnir og mót er orðin mikil. Hvers vegna allar þessar keppnir og sá þrýstingur að standa sig best á mótum, ekki tapa?

Í crossfit er ekki gert upp á milli barnanna eftir getu, en séð um að þau fái sem besta og mesta hvatningu á æfingum og í þjálfun. Hrós er það sem öll börn þurfa á að halda, það fá þau svo sannarlega í Crossfit Reykjavík, svo er crossfit líka mjög skemmtileg hreyfing.
Á einu ári hafa dætur mínar tvær gjörbreyst. Líkamleg heilsa þeirra er betri, að ég tali nú ekki um andlega heilsu þeirra. Þeim líður miklu betur, eru glaðari og hamingjusamari, með aukið sjálfstraust sem hefur leitt til betri árangurs í náminu. Þessum breytingum er ekki síst þjálfuninni í crossfit að þakka. Í Crossfit Reykjavík starfa einstaklega góðir þjálfarar sem eiga skilið mikið hrós fyrir og þakklæti fyrir það sem þeir hafa gert fyrir dætur mínar og önnur börn.
Til ykkar kæru foreldrar, vil ég endilega benda ykkur á þessi frábæru námskeið hjá CrossFit Reykjavík en í boði eru námskeið fyrir börn og ungmenni frá 6 ára aldri.

Crossfit fyrir börnin er hrein snilld!

– – –

Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X