Loading

DÁSAMLEGAR VÖGGUVÍSUR

Við elskum yndislega tónlist sem að róar og gleður börnin okkar og tökum þessari nýjustu viðbót fagnandi. Það eru Hafdís Huld og eiginmaður hennar Alisdair Wright sem að eiga heiðurinn að henni en platan var unnin í hljóðverinu í bleika húsinu þeirra hjóna Mosfellsdalnum þegar Hafdís var langt gengin með þeirra fyrsta barn.  Fyrir vikið lögðu þau mikla alúð í verkefnið sem að skilar sér svo sannarlega.

Hafdís lýsir plötunni ekki sem barnaplötu heldur sem mjúkri plötu sem henti fólki á öllum aldri, en efnistökin séu mjög barnvæn. Hún leitaði til margra foreldra við lagavalið og fann út hvaða lög væru ómissandi á plötu sem þessa. Úr varð fimmtán laga plata með nokkrum íslenskum þjóðlögum í bland við frumsamdar eða erlendar vögguvísur með íslenskum textum eftir Hafdísi.

„Ég bætti við uppáhalds erlendu vögguvísunum mínum því barnið mitt verður hálfútlent og kannski langaði mig að hafa einhverja tengingu við það,“ segir Hafdís. „Sem dæmi endurútsettum við og sömdum nýjan texta við lagið You Are My Sunshine sem er mikið notað sem vögguvísa úti en hefur aðallega verið sungið af skátum hér heima.“

Ljósmynd: Bertrand/emmacassi.com

X