Loading

DÓTTIR MÍN LÉST Á 39 VIKU

Það var 27. desember 2012 og ég var stödd á jólaballi. Ég var að tala við móður mína og hafði á orði að ég hefði ekki fundið miklar hreyfingar yfir dagin. Hún sagði mér strax að fara upp á spítala og fá að koma í monitor. Í fyrstu vildi ég það ekki þar sem ég átti mæðraskoðun daginn eftir en samt hafði ég það miklar áhyggjur að ég ákvað að drífa mig og fékk að koma í mónitor í Keflavík.

Þar sem ljósmóðirin heyrði bara daufan hjartslátt var hún ekki viss hvort þetta væri minn eða dóttur okkar. Hún ákvað að taka enga sjensa og sendir mig með sjúkrabíl til Reykjavíkur. Maðurinn minn keyrði á eftir bílnum og þegar á Landspítalann er komið er ég aftur sett í mónitor og ekkert heyrist. Því næst er farið í sónar og … ekkert. Komið var með enn betri sónar og nei. Enginn hjartsláttur.

Litla stelpan okkar var látin.

Ég trúði þessu ekki. Ég vildi þetta ekki og trúði ekki að þetta væri að gerast. Okkur var gefin smá stund saman þar sem við grétum engilinn okkar. Ég vildi setja fæðingu af stað nokkrum tímum seinna. Samdrættirnir hreyfðu hana til svo það var eins og hún væri að hreyfa sig sem var mjög erfitt.

Ég þráði umfram allt að hún væri á lífi – að þetta hefðu allt saman verið mistök.

Fæðingin gekk mjög vel þrátt fyrir að ég væri ekki komin með neina útvíkkun og væri óhagstæð. Það þurfti aðeins einn stíl og fæðingin tók allt í allt um sjö tíma. Stelpan okkar fæddist klukkan 11:32, þann 28. desember 2012 eftir 39 vikna og tveggja daga meðgöngu.

Maðurinn minn klippti naflastrenginn og ég fékk hana í hendurnar. Hún var fallegri en orð fá lýst, með mikið svart hár og heilbrigð að öllu leiti. Hún vó 3650 gr og var 52 sentimetrar að lengd. Foreldrar okkar komu og fengu að sjá hana og halda á henni. Hún var blessuð og henni var gefið nafnið Írena Helga.

Við fengum að hafa hana hjá okkur fram á kvöld en þá var komin tími til að kveðja hana.

Jarðförin hennar var þann 3. janúar 2013. Þá fengum við stund með henni áður en athöfnin byrjaði. Við kysstum hana og kvöddum hana í síðasta skipti. Settur dagur hjá mér hafði verið 2. janúar.

Hún var fullkomin og alveg tilbúin í heiminn að hitta okkur foreldra sína.

Í dag eru að verða fjórir mánuðir síðan að engillinn okkar kvaddi okkur og söknuðurinn mikill. Hún var okkar fyrsta barn. Það kemur ekki dagur sem að hún er ekki í hugum okkar. Við elskum hana meira en orð geta tjáð.

Þetta er lífsreynsla sem að enginn á að þurfa að ganga í gegnum. Við eigum dóttur á himnum, dóttur sem að við myndum vilja hafa hjá okkur fá að horfa á þroskast og stækka en því miður er það ekki svo.

-Helena Reykdal

35v (2) copy

X