Loading

DRAUMURINN UM AÐ EIGNAST BARN

Draumur flestra, með tíð og tíma, er að eignast barn eða börn og stofna fjölskyldu. Það er sem betur fer mörgum mögulegt en alls ekki öllum þótt flestum þyki  það eigi að vera sjálfsagt og eðlilegt. Ég er líka að gera mér grein fyrir því, með auknum aldri og þroska, hvað það er í raun mikið kraftaverk að eignast barn. Dætur mínar urðu nánast til eftir klukkunni en það er langt frá því að allir séu svo lánsamir. Það eru ótrúlega margir í kringum mig sem hafa þurft aðstoð við að eignast barn eða börn og enn aðrir á hinum margumtalaða og langsótta biðlista eftir ættleiðingu.

Friðrik Kristinsson og Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir eru hjón sem hafa beðið í mörg ár eftir að verða foreldrar  − eða, eins og segir á Facebook-síðu þeim til stuðnings: „Um hver áramót seinustu níu árin hefur verið hugsað um og beðið og vonað að næsta ár verði okkar barnalán. En í ár þegar klukkan var 00:00 heima á Íslandi sátum við og sungum fimm litlir apar með litlu kraftarverkunum okkar og þurftum ekki lengur að biðja og vona því þær voru komnar til okkar.“

Enn og aftur spyr maður þeirrar eilífu spurningar; hvers vegna lífið er svo misskipt manna á milli? Úti í hinum stóra heimi fæðast börn í sárri fátækt, eru skilin eftir úti á víðavangi eða send á barna- eða munaðarleysingjaheimili í stað þess að fá að fara til yndislegra hjóna sem hafa þráð svo lengi að eignast barn eða börn.  Börnin eru hæf til ættleiðingar og foreldrarnir svo sannarlega einnig, en vegna galla í „kerfinu“ gengur þetta svona illa – Dómarinn gefur hjónunum ekki leyfi til að fara heim með dætur sínar, Helgu Karolínu og Birnu Salóme.

Það voru társtokkin augu sem námu þessa frétt. Þetta yndislega fólk er búið að bíða í tíu ár eftir að eignast börn og þegar loks sést fyrir endann á biðinni segir „kerfið“ stopp. En ég veit að þau munu berjast og berjast og gefast ekki upp.

Nú þarf þjóðin að standa saman og veita þeim stuðning. Allt þetta ferli hefur nú þegar kostað þau svo miklu meira en þau gátu nokkurn tímann gert sér grein fyrir. Nú þurfum við að taka höndum saman og leggja þeim lið. Verum dugleg að senda þessar upplýsingar til vina og kunningja, deila á Facebook og aðrar netsíður, því eins og góða máltækið segir  „margt smátt gerir eitt stórt“. Allir að ýta á LIKE.

Hér með óska ég af einlægni eftir stuðningi ykkar. Það eina sem við getum gert er að senda þeim góðar hugsanir og bænir og styrkja þau fjárhagslega, þótt ekki sé nema 500 til 1000 krónur á hvert heimili eða andvirði einnar Dominos PIZZU.

Reikningsnúmerið er:  160 – 15 – 380170, kt: 161278-4599

Hjálpumst að við að koma Helgu Karolínu og Birnu Salóme heim til Íslands!

– –

Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X