Loading

DRULLUVONT AÐ FÆÐA!

Undanfarið hafa verið skrifaðar þó nokkuð margar fréttir af Miröndu nokkurri Kerr sem er hvað þekktust fyrir að vera gullfalleg ofurfyrirsæta með hjartað á réttum stað.

Hún eignaðist fyrsta barn sitt nú í janúar og fljótlega eftir fæðinguna bárust fréttir af því hvað þetta hefði verið dásamlega náttúrulegt, yndislegt og lítið mál. Í ofanálag var hún komin aftur upp á tískusýningarpallana nokkrum vikum síðar, flaggaði óspart myndum af sér að gefa brjóst og talaði fjálglega um mikilvægi þess að borða lífrænan og hollan mat, nota eingöngu lífrænar snyrtivörur – eins og hún sjálf framleiðir og þar fram eftir götunum. (Sem er auðvitað frábært – bíðið róleg.)

Ég skal alveg viðurkenna að ég fékk mér enn einn hraunbitann þegar ég melti þessar fréttir og leið satt best að segja eins og hálfgerðum aumingja. Þarna var ég – tveggja barna móðir sem dreymdi um að anda mig í gegnum fæðinguna og valhoppa út af fæðingardeildinni. Það var ekki raunin og er það eiginlega bara efni í annan pistil. Ég var ólétt í 42 vikur í bæði skiptin – gangsett og kjagaði út af spítalanum í bæði skiptin, þreytt, blúsuð, saman saumuð og með tárin í augunum.

Konur eins og Miranda Kerr voru óþægileg áminning um allt það sem ég var ekki.

Í dag las ég svo dásamlega frétt sem fékk mig til að líða betur. Hljómar kannski furðulega en í öfugsnúnum hausnum á mér fannst mér þetta í alvörunni góð frétt.

Miranda sagði semsagt frá því í viðtali að þetta hefði verið tóm vitleysa hjá henni að fæða án mænudeyfingar og að þetta hefði verið ógeðslega vont – svo ég kvóti hana sjálfa. Hennar minning af fæðingunni væri sársauki og meðaumkvunarsvipurinn á eiginmanninum sem var við það að líða útaf af hryllingi og vorkunsemi. Auðvitað var það allt þess virði þegar barnið kom í heiminn og þar fram eftir götunum en mikið óskaplega fannst mér jákvætt að heyra hana tala á þennan hátt – sérstaklega eins og pressan er oft mikil á að gera þetta eins „náttúrulegt” og kostur er.

Sjálf hefði ég fúslega viljað anda mig í gegnum þetta og upplifa náttúrulega endorfínvímuna sem fylgir vel heppnaðri fæðingu. Því miður var það ekki þannig en ég skal glöð játa að ég er rosalega ánægð að heyra að Miranda er bara mannleg þrátt fyrir allt og það er – og verður seint  – sáraukalaust að fæða án mænudeyfingar. Því hefur nefnilega verið haldið dáldið á lofti að það sé ekkert mál að fæða án deyfingar, þetta sé allt saman spurning um hugarfar og fyrst að allar fallegu og frábæru konurnar geti það – þá hljótum við hinar að vera bölvaðir aumingjar.

Og hvað er ég að reyna að segja – jú kannski bara að þrátt fyrir að Miranda jaðri við að vera fullkomin þá eru hún alveg eins kona og flestar okkar hinna. Hún finnur fyrir því að fæða rúmlega fjögurra kilóa barn og húrra fyrir henni – hún þorði að rispa glansmyndinna og að segja frá því að sama hvað hver segir – þá er það drulluvont að fæða!

X