Loading

ÉG ER HVORKI ÓHÆF MÓÐIR NÉ BARNIÐ MITT ÓALANDI

Við erum jafn ólík og við erum mörg. Suma daga erum við vel upplögð, aðra daga ekki. Ég hef í ófá skipti farið með eldri dætur mínar tvær í verslanir og það tekur stundum á. Áreiti í verslunum er mikið og löngun barnanna í svo margt og þá helst allt það óholla sem til er. Ég tel mig hafa leyst þær uppákomur ágætlega þótt ég segi sjálf frá. Þær fengu skýr fyrirmæli og höfðu getu og skilning til að fara eftir þeim. Ég þurfti alla vega aldrei að skilja körfuna eftir inni í verslun og halda á þeim öskrandi út í bíl, eða skilja þær eftir gargandi á gólfinu einhvers staðar í versluninni af því þær fengu ekki það sem þær vildu.
En að eiga barn sem hefur ekki sömu færni til að fara eftir fyrirmælum, hvað þá að höndla áreitið eins og verslunarferðir, er ólíkt flóknara dæmi. Fyrir nokkrum árum fór ég með dætur mínar þrjár í raftækjaverslun. Þetta tók sinn tíma, enda var ég að kaupa mér þurrkara þar sem ég var orðin þreytt á að þurrka þvottinn um alla íbúð ─ allir ofnar og stólar voru notaðir til að þurrka þvott og það reyndi á til lengdar.

Yndislegu eldri dætur mínar reyndu sitt besta til að hafa ofan fyrir litlu systur sinni, en það dugði skammt. Þolinmæðin þeirra stuttu var á þrotum. Hún höndlaði ekki biðin og hvað þá í nýju umhverfi. Ég tók hana í fangið og hélt á henni með annarri hendinni á meðan ég skrifaði undir kaupsamninginn með hinni ─ dæmigerður Íslendingur sem setti allt á raðgreiðslur. Í miðju kafi losar dóttir mín sig og gengur frá mér. Elsta dóttir mín grípur hana áður en hún hleypur út og litla systir hennar liggur gargandi á gólfinu.

Í dágóðan tíma þarna inni hafði ég mætt illilegu augnarráði eldri konu. Ekki nóg með það heldur gengur hún fram hjá dætrum mínum og segir við þá eldri þannig að glumdi í: „Skilið til móður ykkar að fara að ala þennan krakka almennilega upp“ og bætti svo við: „getur þú ekki látið hana hlýða þér og komið henni út úr búðinni svo við þurfum ekki að hlusta á þetta garg?“

Dóttir mín varð orðlaus og miður sín og spurði: „Mamma, af hverju sjá ekki allir að hún er með einhverfu? Af hverju er hún ekki eins og önnur börn? Ég vildi að hún væri eins og systir vinkonu minnar.“ Þetta var í fyrsta skipti sem ég heyrði eldri dætur mínar tala svona. Þær eiga systur sem er með einhverfu, systur sem venjulegar eða hefðbundnar uppeldisaðferðir virka ekki alltaf eins og á önnur börn. Yngsta dóttir mín sér hlutina bara frá sínu sjónarhorni. Bið er hennar versti óvinur og hvað þá í verslun sem hún hefur ekki farið í áður. En það er líka ástæðan fyrir því að ég reyni að hlífa henni við því að fara með mér í slíkar ferðir, en stundum er það bara þannig að það er ekki hægt að komast hjá því þar sem ég er einstæð móðir í skóla og í aukavinnu og þarf því oft að útrétta seinni parts dags eða um helgar.
Ég viðurkenni fúslega að ég hef þurft að fara með yngstu dóttir mína út úr matvöruverslun og þurft að skila fulla innkaupakerru af vörum eftir inni. Ég hef tekið hana í fangið og farið með hana út í bíl gegn hennar vilja. Ég hef þurft að gera allt sem ég hneykslaðist sjálf á áður en ég eignaðist börn, já og meira að segja eftir að ég eignaðist eldri dætur mínar. En þær eru „heilbrigðar“ og þó svo að þær séu óttalegar frekjuskottur, þá var mun minna mál að tjónka við þær heldur en dóttur mína sem er með einhverfu.

Kæru lesendur! Ég er hvorki óhæf móðir né er barnið mitt óalandi. Hún er með einhverfu og var í aðstæðum sem hún réð ekki við og hvorki vissi né hafði getu til að bregðast öðruvísi við en gerðist í umrædd skipti sem hér eru nefnd. En trúið mér! Ég hef aldrei farið aftur með barnið mitt í tiltekna rafvöruverslun, þó svo ég hafi sjálf farið þangað nokkuð oft og líkað vel.
Pössum okkur á að dæma ekki aðra.

Elísabet

– –
Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X