Loading

ÉG ER MAMMA!

Í fimm ár hefur það verið mitt aðalstarf að vera mamma. Þann 8. febrúar 2007 komu nefnilega fyrstu börnin til að búa hjá okkur hjónunum. Ég hafði aldrei passað börn að neinu viti og í raun ekki umgengist börn meira en gengur og gerist. En mig langaði til að vera mamma og í nokkur ár höfðum við hjónin reynt (án árangurs) að koma okkar eigin barni í heiminn. Og til að uppfylla þessa þörf okkar um að stofna fjölskyldu ákváðum við að gerast fósturforeldrar.

Það er í raun ótrúlega einfalt að taka á móti ókunnugu barni og bjóða því húsaskjól og umhyggju þann tíma sem þörf er á. Börnin sem hér hafa dvalið hafa stoppað mis lengi, frá nokkrum dögum upp í nokkur ár. Sama hversu lengi þau stoppa við þá fá þau öll það sama – mig fyrir mömmu! Ég vil þó taka það fram að ég hef aldrei krafið neitt barn um það að vera kölluð mamma, enda skiptir orðið sjálft engu. Orðið hins vegar stendur fyrir það sem ég geri – ég sinni öllum þörfum, stórum sem smáum. Ég elda mat og þvæ þvott, ég spjalla og hugga. Ég veiti því barni sem hjá mér dvelur það sem barnið þarfnast þá stundina.

Ég er góð í því að vera mamma, ekki fullkomin, en góð. Mér finnst ég geta sagt það af því að ég legg mig alla fram, geri allt sem í mínu valdi stendur til að sinna hlutverkinu eins vel og ég mögulega get. Þetta er bæði vinna og áhugamál og ég vildi ekki gera neitt annað!

Okkur hjónunum tókst síðan, eftir 6 ára bið, að koma okkar eigin barni í heiminn og svo stuttu síðar öðru kraftaverki. Og ég get ekki litið öðruvísi á en svo að það hafi einhver æðri máttur ákveðið að svo ætti að vera. Því ég hefði ekki valið mér það að verða mamma allra þessara barna, nema af því ég gat ekki eignast börnin sjálf. Og það hefur verið mér mikill lærdómur og blessun að fá að kynnast þessum börnum og fjölskyldum þeirra.

Ég er ein af þeim sem get ekki setið aðgerðarlaus, ég vil að lífið sé hlaðið áskorunum – stórum sem smáum. Í dag eru börnin “mín” fjögur, hver dagur hlaðin lífi og fjöri og mamman verkum hlaðin frá morgni til kvölds. En það er sko glöð mamma, því ég valdi þetta hlutverk og vil hvergi annars staðar vera.

– – –
Ég heiti Kristín Ósk, er félagsráðgjafi að mennt, heimavinnandi húsmóðir og fósturforeldri að atvinnu. Barnafjöldinn er því breytilegur en fastinn eru Rósin (2006), Drekinn (2010) og Ljónið (2011). Ég er einstaklega afskiptasöm, skipulögð og óskipulögð í senn, horfi jákvæðum augum á lífið og tilveruna og hef ekki áhyggjur af því sem ég fæ ekki breytt!

X