Loading

ÉG ER MEÐ PÍKU!

Systir mín kom til mín um daginn og sagði mér að sá þriggja og hálfs árs hafi sagt henni að strákar væru með typpi og stelpur með byngju. Ég leiðrétti hana og sagði að hann hefði verið að segja píka. Systir mín fór hjá sér og hló um leið, fannst kjánalegt að heyra barn segja þetta „dónaorð“.

Ég hef meðvitað kennt syni mínum að nota orðið píka yfir kynfæri kvenna þegar það hefur borist í tal, því hann hefur jú spáð í því afhverju ég er ekki eins og aðrir á heimilinu (sem eru allir karlkyns).

Af hverju á píka að vera eitthvað dónalegra heldur en typpi? Píka er orðið sem er notað yfir kynfæri kvenna og finnst mér því eðlilegt að nota það orð en ekki þau gælunöfn sem ég hef heyrt, t.d. budda, pjalla, pjása o.s.frv. Mér hefur ávallt fundist sem að gælunöfnin gefi til kynna að píka sé eitthvað til að skammast sín fyrir. Það hefur alla vega verið það sem ég hef fengið á tilfinninguna.

Píka er bara orð yfir líkamshluta, líkt og hönd, fótur, il, nef, eyra, brjóst og svo get ég lengi haldið áfram. Er það ekki okkar að útrýma þeirri merkingu sem píkan hefur fengið með tíðinni? Sýna að þetta sé ekkert til að skammast sín fyrir. Ég alla vega get ekki séð annað en að þetta liggi í höndum foreldra að sýna barninu sínu að það sé ekkert skammarlegt við kynfærin eða orðin sem þeim fylgja.

– – –

Ég heiti Hildur Lilja en er yfirleitt kölluð Hilja. Ég er 26 ára, gift og á tvo litla drengi. Ég er menntaður náttúrufræðikennari og ástríða mín tengist fyrst og fremst hinum ýmsu sviðum heimilisins og reyni ég að deila þeirri ástríðu á www.hiljainspires.blogspot.com. Hér hef ég hins vegar hugsað mér að deila með ykkur móðurhlutverki mínu.

X