Loading

ÉG HEITI MAGGI OG ER STOLTUR PABBI!

Jómfrúarbloggið … eða jómfeðrabloggið?

Mig langar aðeins að segja ykkur frá upplifun minni af fæðingu dóttur minnar.
Það er tvö og hálft ár síðan ég fékk litlu prinsessuna mína í heiminn, eins og allir feður og jú, auðvitað mæður geta sagt þá er þetta sú eftirminnilegasta og magnaðasta upplifun sem við fáum að njóta á ævinni.

Við Rakel unnusta mín vorum farin að bíða óþreyjufull eftir að litla daman myndi láta á sér kræla og eitt kvöldið ákvað hún að láta til skarar skríða…

Sem betur fer fyrir mig því skapið í Rakel var farið að hækka eins og brimalda á Hawaii!

Áður en ég segi ykkur aðeins frá því hvernig fæðingin gekk þá vil ég að þið vitið það fyrirfram að reynslan okkar af fæðingarganginum og hreiðrinu þessa tæpu tvo sólarhringa var eitt það mesta ævintýri sem ég hef upplifað!

Á sunnudagskvöldinu sátum við heima að horfa á Fangavaktina eins og flestir Íslendingar gerðu sér til afþreyingar á sunnudagskvöldum.
Um tíuleitið fór ég að taka eftir að Rakel var farin að horfa óvenju mikið á mig og glotta.
Ég athugaði hvort að ég væri með eitthvað framan í mér eða í hárinu, en svo var ekki.
Ekki var þetta skítaglott, hugsaði ég með mér þannig að ég spurði hvort að hún væri hugsanlega með samdrætti og bingó þarna fékk ég einfalt svar við þessari pælingu minni!

Þessa nótt sváfum við ekki neitt því Rakel fékk reglulega samdrætti alla þessa nótt og ég var þá mættur á mjóbakið að þrýsta og nudda til að reyna að hjálpa til við þessar kvalir hennar.
Um sexleitið vorum við algjörlega komin á fætur og farin að taka okkur til því það var vist eitthvað að fara að gerast?

Hálf átta mættum við upp á fæðingarganginn og okkur var vísað inní herbergi þar sem átti að athuga hjartslátt, blóðþrýsting og allt þar á milli.
Konan sem sá um okkur kom tækjum og tólum fyrir hér og þar á Rakel og ég sat við hliðina hálf sofandi en samt að deyja úr spennu.
Þar sem að við hittum akkúrat á vaktaskipti urðu 20 mínútur að 60 mínútum þangað til að það kom kona inn til að segja okkur að hún væri að raða niður á vaktina þannig að við yrðum að bíða lengur og fór. 20 mínútum síðar kom hún aftur og sá um okkur næstu klukkutímana….af hverju kom hún þá í millitíðinni í staðinn fyrir að drífa bara vaktaplanið af?

Þetta og margt fleira fékk okkur til að klóra okkur verulega fast í kollinum það sem eftir lifði spítalavistar.

Jæja tímarnir liðu og samdrættirnir héldu bara áfram…

Svo var okkur boðið að borða um tólf (við vorum ekkert búin að borða síðan kvöldið áður) og vá hvað maður gat hugsað sér eitthvað gott að borða… við fengum Óskajógúrt og kalt ristað brauð með osti, gúrku og tómötum.

Auðvitað var ég þakklátur fyrir að fá að borða en þar sem að ég var búinn að sjá þetta sem þurrskreytingu niðri í anddyri fyrr um daginn var lystin ekki mikil.
Rakel var búin að öskra blíðlega til mín að núna vildi hún fá stofu með heitum potti strax og ég hugsaði með mér að ég væri líka til í að komast í spa!
Þannig að ég fór fram til að komast að því hvort að einhver gæti uppfyllt þessa bón hennar, það voru jú, tvær stofur með potti lausar og ég spurði ljósuna beint fyrir utan herbergið hvort að við mættum fá annað hvort herbergið en hún sagði að það væri upptekið.

Ég leit varlega inn um galopnar dyrnar á herberginu og ég bara sá ekki nokkra hræðu þarna?
Ætli ljósan hafi verið búin að vera of lengi í vinnunni, hugsaði ég með mér. Kannski farin að sjá eitthvað sem við hin sáum ekki?

Tveimur tímum seinna kom ljósan og tilkynnti okkur að herbergið væri autt og við mættum fara í það.
„Nú strax?” spurði ég kaldhæðið….. „Já það bara var að losna!” segir ljósan svo glöð að ég trúði henni næstum?
Þegar við komum inní herbergið stökk Rakel strax í pottinn og var þar næstu tímana í góðum gír með hvítri plastönd sem var líka hitamælir… þetta gat Rakel dundað sér lengi við.

Eftir margar skoðanir og samdrætti og fleiri þurrskreytingar sem boðið var upp á í matinn fékk Rakel loks mænurótardeyfingu.
Síðan var bætt á deyfinguna eftir smá tíma og við ákváðum að leggja okkur eitt augnablik fyrst að Rakel fann ekki fyrir sársauka þessi andartök…
Þegar ég vaknaði spurði Rakel strax hvort að eitthvað væri að auganu á henni?

Hún var bara ekkert nema augað!

Þá hafði deyfingin einhvern veginn leitað uppá við í taugarnar og gerði henni þennan undarlega en jafnframt skemmtilega grikk!

Af hverju skemmtilega? Jahh ef þú hyggst gerast svæfingarlæknir í framtíðinni gætiru séð mynd af Rakel í kennslubókinni þinni!
Svæfingarsérfræðingurinn kom og tók mynd af Rakel því að hún er greinilega þriðja tilfellið á fjórum árum sem þetta kemur fyrir og hann bað Rakel um að leyfa sér að nota myndina í kennslu!
Eins vönkuð og Rakel var sagði hún „já auðvitað” og það var engu líkara en að hún héldi að myndin væri að fara á forsíðu Vogue!
Fyndið atvik sem fékk engann veginn að njóta sín þar sem að ég studdi náttúrulega konuna mína í gegnum ósköpin!

25 tímar af hríðum og fæðingin byrjaði!
Ég var ekki kallaður neinum illum nöfnum og ekki ljósan heldur, engum var hótað lífláti né limlestingum!
Þetta gekk nokkuð vel bara…

Rakel tæklaði rembingarnar eins og hetja og allt i einu sagði ljósan að litla skvísan okkar væri að koma í heiminn og að hún væri með mikið hár?

Mikið hár?

Já, þá hafði kollurinn komið aðeins út en dregist svo aftur inn og einn hár lokkur varð eftir!
Síðan kom rembingur og Rakel skaut píunni út svo að ljósan mátti hafa sig alla við að grípa hana!

Þarna var þessi litla prinsessa komin og horfði bara á mömmu sína með stóru augunum sínum!
Svo fékk ég að halda á henni, sá var í skýjunum þessi stórskrýtni pabbi með þennan litla engil, bara nokkurra mínútna gamla!

Ljósan sagði síðan „jæja núna ætlar pabbinn að klæða stelpuna sína!” eins og hún vildi að ég myndi vera bara alveg glær og bora í nefið…en nei gamli var sko alveg með þetta!
Reynslan af þremur litlum systkinum hlaut einhvern tímann að koma að notum!
Ég snaraði bleyjunni á og skutlaði henni í fötin eins og ég hefði unnið á elliheimili til margra ára!

Ljósan varð eitt spurningarmerki og skildi ekkert af hverju ég vissi hvernig bleyjan átti að snúa?

Núna vorum við færð í herbergi inná hreiður, þar var hjónarúm þar sem við gátum lagt okkur!
Vel þegið? Já og nei!

Já, við vorum þreytt en lyktin í rúminu var eins og einhver hefði fætt í rúmið tveimur mínútum áður en við komum!

Þarna var algjört frostmark og greinilega ekki mikil einangrun í veggjum þar sem maður heyrði samtal allra á ganginum?
Eitt skiptið stuttu eftir að við komum inná herbergið var ég að skipta á litlu dömunni þegar Rakel þurfti að fara á klósettið, ég dinglaði bjöllunni til að fá einhvern til að hjálpa henni fram og þarna kom ung stúlka sem átti stutt í fermingu og ætlaði að hjálpa henni?

Jæja hjálpin fólst greinilega í því að segja „Klósettið er þarna hehe ok bæ!” og Rakel klöngraðist inn ganginn og inní kústaskáp en fann hvergi neinn stað til að pissa á þannig að hún fór inn um hurðina beint á móti og fann klósettið!

Daginn eftir fóru nokkrir tímar í að hjálpa okkur að græja brjóstagjöfina og okkur var farið að langa mikið heim!
Þegar klukkan var orðin sex labbaði ég fram að ná í vatnsglas, þá sá ég eina ólétta konu að borða kvöldmat og ljósa sem ég mætti sagði að þessi kona væri sú eina á ganginum fyrir utan okkur?
Ok næs?

Þegar ég kom inná herbergi var ljósan komin að athuga með Rakel. Svo segir ljósan ljúflega „eruði ekki orðin svöng elskurnar?”
Uuu jú við erum ekkert búin að éta síðan á sunnudaginn en við erum að vonast til að fara að komast heim?
„Já, það var nebbla ekkert gert ráð fyrir ykkur í mat!”
Hmmm hvers vegna varstu þá að spurja?

Fljótlega eftir það fórum við heim…loksins!

En þetta var gaman og sérstakt….

Stúlkan var tæpar 13 merkur og 50 sentimetrar, 3.225 grömm!

Hún er alveg eins og mamma sín…sem betur fer!

Nema með puttana mína, tærnar og eyrun mín!

Það hlýtur bara að vera sanngjarnt?

Með allra bestu kveðju, Maggi!

X