Loading

ÉG REYNI

Ég var að horfa á sakamálaþátt um daginn þar sem að „fórnarlambið“ var í raun ekki dáið en lögreglan vildi halda almenningi í trú um að einstaklingurinn væri dáinn og fékk hann þá að fylgjast með því sem fólk sagði um hann þegar hann var „dáinn“. Honum líkaði ekki það sem hann heyrði.

Ég fór þá að velta því fyrir mér hvernig yrði talað um mig þegar ég yrði öll eða jafnvel bara þegar drengirnir mínir fullorðnast, eiga þeir eftir að hugsa um mig sem mömmuna sem gerði allt rétt eða eftir sinni bestu getu eða eiga þeir eftir að hugsa til mín sem mömmunnar sem gerði allt vitlaust.

Ég reyni hvern einasta dag að gera mitt besta og eftir minni bestu sannfæringu. Ég reyni að vera góð og réttlát móðir, reyni að vera sá kennari sem kveikir áhuga hjá nemendum gagnvart námi og vilja til að auka þekkingu sína. Ég reyni að vera ávallt til staðar fyrir eiginmann og vini og tilbúin til að hlusta, reyni að vera systrum mínum fyrirmynd og einstaklingur sem fjölskyldan getur verið hreykin af að þekkja. Ég reyni umfram allt að vera trú sjálfri mér, hlusta á hjarta jafnt sem hug og vera samkvæm sjálfri mér.

Ég held að svo lengi sem maður reyni sé maður á góðri braut. Það getur enginn álasað manni fyrir að reyna sitt besta.

– – –

Ég heiti Hildur Lilja en er yfirleitt kölluð Hilja. Ég er 27 ára, gift og á tvo litla drengi. Ég er menntaður náttúrufræðikennari og ástríða mín tengist fyrst og fremst hinum ýmsu sviðum heimilisins og reyni ég að deila þeirri ástríðu á www.hiljainspires.blogspot.com. Hér hef ég hins vegar hugsað mér að deila með ykkur móðurhlutverki mínu.

X