Loading

ÉG VAR EINU SINNI ÁGÆTIST TÖFFARI

Ég var einu sinni hipp og kúl, ég segi ekki að ég hafi lifað á brúninni en ég þóttist alla vega vera ágætist töffari og kallaði ekkert allt ömmu mína. Svo kom frumburðurinn og tívolítækin voru ekki lengur jafn freistandi fyrir rúmlega tvítugu móðurina. Þegar næsta barn fæddist starfaði ég sem flugfreyja og hafði aldrei liðið annað en vel í háloftunum. Fyrsta flug eftir að þessi önnur dóttir kom í heiminn var aftur á móti erfiðasta flugferð lífs míns. Allt var eðlilegt… nema ég, uppfull af hormónum og móðurlegri ábyrgð. Hver hreyfing vélarinnar og hvert smávægilegt hljóð var skyndilega ástæða til grunsemda.
Þegar svo örverpið kom í heiminn var ég ekki lengur neinn unglingur, 32 ára ábyrg tveggja barna móðir svo þetta snerist ekkert endilega um að ég væri að missa af klettaklifursæfingu í hádeginu, heldur varð sífellt fleira hættulegt. Í mínu tilfelli hefur þetta sem sagt þróast þannig að þessi lífshræðsla eykst með barni hverju, kannski meikar það sens – enda ábyrgðin þreföld.

Í allan vetur hef ég undirbúið mig ásamt vinkonum mínum fyrir lengstu göngu lífs míns (hingað til), á hæsta punkt Íslands, Hvannadalshnúk. Ég er ekki lofthrædd eða hrædd við að reyna á mig svo ég hefði haldið að ég myndi rúlla þessu upp. Á einum undirbúningsfundinum var svo farið að ræða íssprungur og hvernig skyldi brugðist við ef einhver dytti ofan í slíka. Einmitt! Ég sem er einmitt með alveg ljómandi mikla innilokunarkennd og gæti líklega ekki ímyndað mér margt verra en að festast ofan í jökulsprungu. Ég leit á vinkonur mínar og skyndilega rann upp fyrir mér ljós: Þær eru allar barnlausar! Ekki eins og ég hafi ekki vitað það… Viku fyrir brottför átti ég svo spjall við aðra vinkonu um jöklaslys, sennilega ekki það gáfulegasta sem ég gat gert en ég áttaði mig ekki á því fyrr en daginn eftir hversu mikil áhrif umræðan hafði haft á mig. Ég var nefnilega ekki alltaf svona vænissjúk og þarf að læra á sjálfa mig upp á nýtt!

Auðvitað datt ég svo í sprungu í göngunni, ekkert stóra, bara upp að mitti og kom mér sjálf upp með þvílíku óðagoti að köttur hefði skammast sín. Hjartað ætlaði út úr brjóstinu og tárin voru að brjótast fram þegar gargað var „áfram“ og ekkert þýddi að reyna að malda í móinn, bundin í öryggislínu, í fimbulkulda og blindbyl. Fljótlega var svo kallað: „sprunga“ og allir áttu að hoppa yfir litla sprungu, ég ákvað bara að staldra aðeins við og tala sjálfa mig til, ekki í boði, enginn tími fyrir „pepp-talk“ bara hoppa yfir og það strax! Í næsta stoppi sagði ég leiðsögumanninum frá því að ég hefði þurft að tala sjálfa mig til síðasta klukkutímann með tárin inni í skíðagleraugunum. „Nú, ertu svona hrædd við sprungur?“ spurði hann þá og ég áttaði mig á því að það væru ekki allir á sama stað. „Horfðu bara hvar þú ætlar að hoppa, ekki til hliðanna,“ ráðlagði hann mér og ég hafði orð hans í huga næst þegar hann kallaði: „sprunga!“
Eins og ég hugsaði oft á þessu tímabili sem ég sá lítið sem ekkert út, hvað í fjáranum ég þriggja barna móðirin væri að dröslast upp á jökul eins og blábjáni, þá fannst mér ég auðvitað geta allt þegar komið var niður og augnhárin höfðu þiðnað.

Það er held ég eðlilegasta tilfinning í heimi að verða lífhræddur með aukinni ábyrgð. Sennilega væri ekki málið að foreldrar væru fljúgandi um hjálmlausir í svifdrekum að sækja börnin í leikskólann eða að þeir hoppuðu niður af svölunum því þeir nenntu ekki að labba niður tröppurnar af fjórðu hæð. Minn lærdómur er alla vega sá að maður verður bara að pína sig í næsta flug, hoppa yfir næstu sprungu, halda áfram og reyna að líta sem minnst til hliðanna.
Nú vill vinahópurinn samt fara í fallhlífastökk… Hvað á lífhræddi fyrrum töffarinn nú að gera?

– –
Björk Eiðsdóttir hefur starfað við íslenska fjölmiðla undanfarin fimm ár, þá bæði tímarit og sjónvarp eftir að hafa menntað sig í fjölmiðlafræði í Bandaríkjunum. Hún er sjálfstæð móðir þriggja sjálfstæðra barna á aldrinum fimm til fjórtán ára. Hún segist vita að það er hægt að gera allt með fjölskyldu eftir að hafa farið í gegnum háskólanámið með tvö kríli og eignast það þriðja á útskriftarönninni. „Það er allt hægt en það getur kostað svita og puð þó oftar sé þetta gaman og síðast en ekki síst er um að gera að taka lífinu létt, hlæja að öllum mistökunum og halda áfram.”

X