Loading

ÉG VILDI EKKI BARNIÐ MITT

Þegar kona verður ólétt er yfirleitt gert ráð fyrir því að hún sé hamingjusöm yfir því, þ.e. ef hún er ekki of ung eða einstæð. Sömuleiðis virðist það vera krafa samfélagsins að móðirin sé himinlifandi með nýfætt barn sitt, að hún elski það um leið skilyrðislaust og svífi um á bleiku skýi.

Það er þá ekki skrítið að konur skammist sín þegar þeim líður ekki eins og þeim „ætti“ að líða. Á fyrri meðgöngunni minni var ég himinlifandi og fljótlega eftir að ég átti fann ég fyrir móðurástinni. Fljótlega eftir að ég átti fyrri strákinn minn ákváðum við hjónakornin að reyna við barn númer tvö en það lét bíða eftir sér. Eftir eitt og hálft ár af mánaðarlegum neikvæðum prófum gaf ég þessi plön upp á bátinn og ákvað að halda áfram að lifa lífinu. En þá um leið varð ég ólétt og í stað þeirrar gleði sem ég fann á fyrstu meðgöngu minni voru tilfinningarnar blendnar. Nú var ekki aftur snúið og ég gat ekki lengur sagt með fullri vissu að mig langaði í þetta barn.

Eftir því sem leið á meðgönguna varð ég neikvæðari og neikvæðari gagnvart þeim einstaklingi sem var að vaxa innra með mér og þegar settur dagur var við næsta horn var ég orðin svo neikvæð að mig langaði ekkert í barnið lengur, langaði að geta farið aftur í tímann og hætt við allt saman. Ég vonaði að þetta myndi lagast eftir að ég eignaðist barnið.

Þann 1. júní 2012 eignaðist ég svo drenginn minn. Mér fannst hann yndislega fallegur og hugsaði með mér: „Þetta er strákurinn minn.” Ég var ánægð og fór glöð að sofa. Morguninn eftir voru hins vegar aðrar tilfinningar uppi á borðinu. Mig langaði að ganga út af spítalanum ein, skilja barnið mitt eftir.

Eftir því sem á leið varð ég biturri og biturri í garð barnsins míns. Óskaði þess á hverjum degi að hann væri ekki til staðar. Vildi aftur lífið þar sem frumburðurinn minn var eina barnið á heimilinu. Þegar litli strákurinn minn var síðan orðinn sex vikna var ég komin mjög djúpt niður, fann ekki lengur áhuga fyrir einu né neinu, fann ekki fyrir ástartilfinningum eða gleði og farin að hugsa um sjálfsmeiðingar.

Ég var heppin með hjúkkuna sem er með strákinn minn í ungbarnaeftirlitinu því hún sá strax að það var eitthvað að og eftir viðtal við heimilislækni var ég send rakleiðis á bráðamóttöku geðdeildar þar sem mér var boðið að leggjast inn því ég var svo alvarlega veik af fæðingarþunglyndi. Ég neitaði og sagðist vilja fara heim og ég fékk það með því skilyrði að ég yrði aldrei ein.

Þremur dögum seinna hitti ég svo Önnu Maríu á geðsviði Landspítalans sem er hluti af FMB-teyminu (foreldra-meðganga-barn) og á sjö vikum hef ég fundið undraverðan árangur. Núna fyrst er ég farin að finna fyrir móðurástinni í garð nýburans míns.

Fæðingarþunglyndi er ekki eitthvað sem á að skammast sín fyrir. Margar konur upplifa þunglyndi og margar fá verri einkenni en ég fékk. Ég tók þann pól í hæðina að segja fólki frá því sem ég var að ganga í gegnum og það sömuleiðis hjálpaði mér að takast á við þunglyndið því það var ekki leyndarmál og sá styrkur sem ég fékk frá vinum og vandamönnum er ómetanlegur. Ég er ekki laus við þunglyndið en ég sé þó birtu í enda ganganna í stað myrkurs hvert sem litið er.

Ég skrifaði þetta í von um að saga mín hvetji mæður að leita sér frekar hjálpar því það er fólk til staðar til að hjálpa okkur. Það er ekki eðlilegt að fyrirlíta barnið sitt en það er eðlilegt að leita sér aðstoðar við þeim tilfinningum sem fá mann til að fyrirlíta barnið sitt.

Ég heiti Hildur Lilja en er yfirleitt kölluð Hilja. Ég er 26 ára, gift og á tvo litla drengi. Ég er menntaður náttúrufræðikennari og ástríða mín tengist fyrst og fremst hinum ýmsu sviðum heimilisins og reyni ég að deila þeirri ástríðu á www.hiljainspires.blogspot.com. Hér hef ég hins vegar hugsað mér að deila með ykkur móðurhlutverki mínu.

X