Loading

EIN ÉG SIT OG BROSI

Ég finn viljann til að gera hluti aukast með hverjum deginum. Þá kom upp nýtt vandamál, ég get ekki gert allt sem ég vil. Ég er ein af þessum sem vantar nokkrar klukkustundir í sólarhringinn. Þó er ég svo heppinn að nær allir dagar hjá mér fara í það sem ég hef unun af að gera.

Ég byrjaði að kenna um áramótin, litli þá 7 mánaða. Það var mikið álag svo að ég hrapaði hratt á botninn. En það góða við að vera á botninum að þá liggur leiðin einungis upp. Ég einbeitti mér að sjálfri mér og því sem veitir mér hugarró. Fyrir utan eldhúsið og prjóna að þá róast ég einstaklega mikið niður við að undirbúa mig fyrir tíma og vinna úr tímum. Þannig að ég stend mig stundum að því að vera allt í einu farin að vinna á kvöldin þó svo að það sé í raun engin þörf á því, geri það bara af því ég elska það.

Að hlakka til að mæta til vinnu á mánudögum finnst mér einstök gæfa. Ég er að kenna á yngsta stigi og miðstigi. Börn eru hreinskilin og þegar þau gleðjast er gleðin svo hrein og einlæg að það er ekki annað hægt en að gleðjast með þeim. Eftir vinnudaginn er ég yfirleitt í betra skapi heldur en í upphafi dagsins.

Um helgar þarf ég að hafa meira fyrir því sjálf að finna gleðina, prófaði um daginn að sitja aðgerðarlaus í fimm mínútur og bara brosa. Veit ekki hvað fólk myndi halda ef það gengi fram hjá glugganum mínum en það eitt að brosa lætur mann hugsa til þess sem veitir manni ánægju og um leið finnur maður fyrir meiri gleði heldur en áður en brosæfingin hófst.

Dagur án hláturs, bros og gleði er glataður dagur.

– – –

Ég heiti Hildur Lilja en er yfirleitt kölluð Hilja. Ég er 26 ára, gift og á tvo litla drengi. Ég er menntaður náttúrufræðikennari og ástríða mín tengist fyrst og fremst hinum ýmsu sviðum heimilisins og reyni ég að deila þeirri ástríðu á www.hiljainspires.blogspot.com. Hér hef ég hins vegar hugsað mér að deila með ykkur móðurhlutverki mínu.

X