Loading

EIN VALDAMESTA KONA HEIMS OG MÓÐURHLUTVERKIÐ

Hún er einn áhrifamesti forstjóri heims og svo virðist sem að konur um heim allan viti fátt skemmtilegra en að djöflast í henni út af hinum ýmsu málum – þó aðallega út af nálgun hennar á foreldrahlutverkið að því virðist.

Marissa Meyer er forstjóri Yahoo og eignaðist á dögunum frumburð sinn. Vakti hún mikla athygli á meðgöngunni þegar hún neitaði að mæta ófrísk í myndatöku með öðrum forstjórum (sem flestir voru karlkyns) og nú nýverið varð allt vitlaust eftir að hún breytti stefnu Yahoo þannig að starfsmenn hafa ekki lengur leyfi til að vinna heiman frá sér.

Steininn tók svo úr þegar að í ljós kom að hún hefur láti setja upp sérstakt barnaherbergi við hlið skrifstofu sinnar þegar sem barnið hennar hefur prívat fóstru svo hún geti mætt í vinnuna. Einnig vakti það mikla athygli að hún tók einungis tveggja vikna fæðingarorlof.

Sannleikurinn er hins vegar sá (eða skoðun þeirrar sem þetta ritar) að Meyer á undir högg að sækja – verandi ein valdamesta kona heims í karlaheimi. Við slíkar aðstæður er ekki ætlast til að þú takir þér langt frí til að eignast börn. Hvað viðkemur ákvörðun hennar um að banna starfsmönnum að vinna heimanfrá þá á ég bágt með að ímynda mér að þetta sé bein árás af hennar hálfu á foreldrahlutverkið – enginn alvöru forstjóri myndi taka slíka geðþóttaákvörðun – ekki hjá fyrirtæki sem veltir milljörðum dala. Að koma upp barnaherbergi við hlið skrifstofunnar er lausn sem sjálfsagt flestir foreldrar vildu óska að þeir hefðu tök á að framkvæma. Með þessum hætti þarf hún ekki að fórna stöðu sinni heldur nær að vefa þetta saman með eins góðum hætti og kostur er í þessari stöðu. Margir fordæma hana sjálfsagt fyrir þetta og segja að hún sé að fórna dýrmætum tíma með barninu og þetta sé ekki gott fyrir barnið… en munum bara að það er erfitt að spegla sig í öðrum – sérstaklega henni sem barist hefur fyrir sínu og stendur keik í heimi þar sem sjaldnast er pláss fyrir börn.

X