Loading

ÞOLENDUR ERU EKKI ÁBYRGIR FYRIR EINELTI

Undanfarnar vikur hafa verið mjög góðar umfjallanir um einelti í Kastljósi og öðrum fréttamiðlum. Stjórnendur Kastljóss eiga þakkir skyldar fyrir þá vinnu og allir þeir fjölmörgu sem komu fram og treystu sér til að ræða svo viðkvæm mál sem einelti er, þið eruð hetjur! Af eigin reynslu veit ég sjálf að slík umfjöllun er sannarlega ekki auðveld. En fólk er fljótt að dæma og því miður hef ég þurft að finna fyrir því.

Einelti er ofbeldi sem ekki á né má viðgangast. Þetta er sú tegund ofbeldis sem getur verið langvarandi í þeirri mynd sem það birtist þolanda. Upplifun þolandans á ofbeldinu er það sem skiptir mestu máli þegar við greinum hvort um er að ræða einelti eða ekki. Þegar þolandi upplifir að á honum sé vegið, síendurtekið af einum eða fleiri aðilum, þá er það hans tilfinning, hans upplifun og það sem ber að virða.

Okkur ber að vera vakandi fyrir velferð okkar eigin barna og annarra. Ef við höfum minnsta grun um að einelti sé í gangi, þó svo að okkar börn eigi ekki í hlut, eigum við að láta viðkomandi foreldra og skóla vita. Starfsfólk skólanna getur ekki tekið á einelti sem það hefur ekki vitneskju um. Í mínu starfi kemur allt of oft í ljós, að einelti er í gangi sem foreldrar vita um en hafa ekki látið skólayfirvöld eða foreldra viðkomandi barna vita. Þarna þurfum við sannarlega að gera betrumbót, taka höndum saman og hugsa betur um velferð allra barna okkar samfélags og stöðva einelti strax!

Barnið okkar getur verið þolandi. Það getur einnig verið áhorfandi og það getur verið gerandi. Eineltisofbeldi fer ekki í manngreinarálit. Hvort sem barnið okkar verður fyrir einelti, leggur önnur börn í eineldi eða eru áhorfendur í þögn, segir ekkert um hvers konar foreldar við erum.

Við þurfum að varast að stilla ekki þolendunum upp sem ábyrgum aðilum fyrir ofbeldi sem þeir verða fyrir. Við þurfum einnig að hafa opinn huga fyrir því að nóg er að verða fyrir ofbeldinu. Við megum alls ekki falla í gryfju meðvirkninnar með því að láta þolanda samþykkja ofbeldið til þess eins að þóknast skólastjórnendum, starfsfólki og gerendum – allt til að halda friðinn fram í rauðan dauðann. Það getur orðið dýrkeyptur friður. Við, sem eigum að vera fullorðnir einstalingar með ábyrgð, þurfum að snúa þessu við. Okkar hlutverk er að aðstoða gerendur við að hætta og breyta þessari óæskilegri hegðun, leiðbeina þeim, kenna og skilgreina hvað viðeigandi hegðun er og hvað ekki.

Flest börn læra, í samskiptum við aðra, hvað það er sem á við – er viðeigandi − og hvað ekki. Sum börn þurfa vissulega meiri leiðsögn en önnur, og þá er það hlutverk okkar fullorðinna að leiðbeina þeim, kenna og umfram allt viðhalda góðum félagslegum samskiptum.

Lítum okkur nær! Einbeitum okkur að þeim samskiptum sem eiga sér stað inn á heimilinu, innan um og fyrir framan börnin okkar. Tölum við illa um vinnufélaga okkar; erum við að láta stjórnmálin og stjórnmálamenn pirra okkur í heyranda hljóði; fréttafólk eða jafnvel nána ættingja? Spyrjum okkur sjálf hvaða skilaboð við erum að senda börnunum okkar? Erum við ekki með þess konar tali að gefa þau skilaboð að það sé í góðu lagi að úthúða skólasystkinum sínum og tala illa um þau? Ef við erum slíkar fyrirmyndir þá vita blessuð börnin ekki betur en að þannig megi haga sér – þetta er veganesti að heiman! Eins og máltakið segir: „Svo læra börnin sem fyrir þeim er haft.“


Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X