Loading

EINUNGIS VIKA EFTIR

Nú fer þetta að styttast, einungis vika eftir af 40. Frumburðurinn spyr reglulega hvort að bumban sé orðin nægilega stór, því samkvæmt honum kemur litla barnið þegar ákjósanlegri stærð er náð ásamt því að lömbin, blómin og laufin séu komin. Mér finnst kúlan alveg rúmlega nógu og stór en sonurinn spyr nú samt. Bumban komin svo langt fram að ég furða mig stundum á því hvernig ég fari eiginlega að því að halda jafnvægi.

Það er engin furða að hestar séu þetta stórir, hvað þá fílar. Hestar ganga með sín afkvæmi í 11 mánuði, fílar í 22 mánuði svo að ég get ekki betur séð að stærð og meðgöngulengd haldist í hendur, hvað annað gæti það verið? Því eftir þessa mánuði (og 9 hjá mér) er greinileg hætta á því að dýrin, og þar á meðal ég, falli á hliðina eða fram fyrir sig. Eins og staðan er núna get ég ekki annað en séð þessa tengingu.

Mér líður stundum eins og keilu sem er við það að falla, riða í allar áttir og aðrir horfa spenntir á og veðja um það hvort ég haldi velli eða falli.

– –
Ég heiti Hildur Lilja en er yfirleitt kölluð Hilja. Ég er 26 ára, gift og á einn 3ja ára strák og með eitt í ofninum sem er væntanlegt hvað úr hverju. Ég er menntaður náttúrufræðikennari og ástríða mín tengist fyrst og fremst hinum ýmsu sviðum heimilisins og reyni ég að deila þeirri ástríðu á www.hilja86.blog.com. Hér hef ég hins vegar hugsað mér að deila með ykkur móðurhlutverki mínu.

X