Loading

EITT LAUGARDAGSKVÖLD

Ég les stundum störnuspánna og hef gaman af. Ekki alls fyrir löngu var hún eitthvað á þá leið að nú gengi allt á afturfótunum hjá mér, en ég mætti ekki láta deigan síga! Ég skyldi nú ekki alveg hvað gengi svona illa hjá mér, jah nema það að litla Ljónið vaknaði 5-10 sinnum á hverri nóttu til að láta klappa sér!

Eftir því sem dagurinn leið (laugardagur), varð mér það ljóst að ég var komin með blöðrubólgu! Búandi í sveit var ekki í boði að stökkva í apótek eða á læknavakt – en ég átti hérna þurrkuð trönuber sem ég smjattaði á. Um kvöldmatarleitið versnaði staðan og ofan í blöðrubólguna bættist niðurgangspest! Ég kom krílunum þremur í ból með aðstoð unglingsstúlku sem býr hjá okkur um þessar mundir. Mikið var ég fegin að geta hvílt mig – eiginmaðurinn ekki heima og allt annað en þægilegt að eltast við liðið svona á sig komin!

Þegar leið á kvöldið versnaði ástand mitt ennfrekar – unglingsstúlkan bað um að fá að fara í sturtu og auðvitað var henni ekki neitað um það. EN rétt eftir að hún hafði læst baðherberginu og kveikt á sturtunni hóf uppáhaldskórinn minn upp raust sína! Drekinn öskraði “mamma, mamma”, Ljónið orgaði hátt og kröftuglega og Rósin meira að segja grét af einhverri vansæld! Í sömu andrá reið yfir mig bylgja af magakrömpum og mér varð hreinlega brátt í brók. Ósköpin öll sem mér fannst ég bjargarlaus, standandi fyrir framan læsta baðherbergishurðina algerlega ófær um að sinna neyðarhrópum úr þremur herbergjum samtímis!

Á þeirri sömu stundu flaug mér stjörnuspáin í hug – dagurinn var jú ekki liðin og með sanni mátti segja að hlutirnir gengju eilítið á afturfótunum þessa stundina. En þetta er nú ekki í fyrsta og alveg hreint örugglega ekki í síðasta skiptið sem það gerist.

En svona ykkur að segja, þá bjargaðist þetta allt – svona fyrir rest.

– – –
Ég heiti Kristín Ósk, er félagsráðgjafi að mennt, heimavinnandi húsmóðir og fósturforeldri að atvinnu. Barnafjöldinn er því breytilegur en fastinn eru Rósin (2006), Drekinn (2010) og Ljónið (2011). Ég er einstaklega afskiptasöm, skipulögð og óskipulögð í senn, horfi jákvæðum augum á lífið og tilveruna og hef ekki áhyggjur af því sem ég fæ ekki breytt!

X