Loading

EKKI EINS OG FÓLK ER FLEST … EÐA HVAÐ?

Þegar maður á þrjú börn og mann, vinnur úti og situr á skólabekk þá er frítími ekkert annað en minning og finnst nú nær eingöngu í draumum mínum. Þið vitið svona frítími þar sem enginn er heima nema þú og heimilið tandurhreint og hljóðlátt. Tónlist að eigin vali ómar og rauðvínið rennur ljúflega niður í afar afslappaðan líkamann.
En þá sjaldan sem þessir draumar mínir rætast og frítími gefst þá er ég svo steingeld á gæðastundir að það eina sem mér dettur í hug að gera er að þrífa allt hátt og lágt! Þvottavélin fær að finna vel fyrir því og sem óð ég æði ég um heimilið með tuskuna á lofti í þeim tilgangi einum að ,,þetta líti nú út eins og hjá fólki“. Eftir að hafa þrælað mér út í frítímanum tek ég lafmóð en fagnandi á móti ástkærri fjölskyldunni sem fyrst núna getur búið eins og fólk og fer því líklegast að líða miklu mun betur. En viti menn ekki nokkur sála tekur eftir því hvað allt er hreint og strokið, óaðfinnanlegt vil ég meina, heldur byrja meðlimirnir hægt en mjög örugglega að setja mark sitt á umhverfið og ekki líður á löngu þar til að fólkið er horfið og eftir eru bara sóðarnir við!
Svo nú er mér spurn. Hvernig fer fólk eiginlega að þessu og hvenær á lífsleiðinni varð ég svona óttalegur sóði? Og síðast en ekki síst hvað er eiginlega til ráða? Fyrri spurningunum tveimur á ég ekki svör en við þeirri síðustu hef ég fundið lausn.
Ég ætla hér með að hætta að eltast við að vera eins og fólk og læra að njóta heimilisins eins og það er. Eftir bestu getu mun ég í hjáverkum halda í horfinu með nokkrum þrifalegum sprettum inn á milli. Fingraförin og klístrið sem dreifist um alla íbúð skal héðan í frá minna mig á fallegu litlu molana mína sem með mjúkum höndum sínum merkja umhverfi sitt. Vígvöllurinn í herbergi unglingsins verður afturhvarf til unglingsáranna þegar taugar minnar móður voru þandar að fram yfir þolmörk og lóboltanir í öllum hornum eru hér með okkar nýju gæludýr, sætir og mjúkir eins og gráir kanínuhnoðrar.
Héðan í frá mun ég líta á frítíma minn sem takmarkaða auðlind sem hverfur eins og dögg fyrir sólu, annað óþrjótandi heimilisverkin. Svo næst þegar draumar mínir um frítíma rætast mun ég draga niður í lýsingunni, láta opinn sápubrúsann fylla heimilið af hreinleika og njóta rauðvínsins pollróleg í sófanum við óm af ljúfum tónum.
Vonandi átt þú lesandi góður eftir að hafa það jafn gott og ég.

– – –

Kolbrún Gunnarsdóttir heiti ég og er tæplega 35 ára gift þriggja drengja móðir. Ég er búsett í noregi þar sem maðurinn minn leggur stund á mastersnám í skipulagsfræðum. Sjálf er ég nemi í þjóð- og mannfræði í fjarnámi við Háskóla Íslands og samhliða því starfa ég í bókaverslun.

X