Loading

„EKKI GLEYMA AÐ HLUSTA Á BÖRNIN”

Foreldri vikunnar að þessu sinni er ritstýran Kolbrún Pálína Helgadóttir. Kolbrún er nýkomin heim eftir frábærlega vel heppnaða ferð að norðan þar sem fjölskyldan dvaldi í góðra vina hóp um páskana. Í ferðinni lærðu börnin að skíða og aðspurð segir Kolbrún að ferðin hafi gengið ótrúlega vel og börnin komið mikið á óvart þar sem geta þeirra hafi verið langt umfram það sem hún hafi haldið.

Börnin eru tvö, þau Sigurður Viðar sem er sjö ára og Tinna Karítas sem er tveggja og hálfs! Kolbrún er mikil fjölskyldumanneskja og segir að bestu stundir fjölskyldunnar séu án efa upp í sumarbústað þegar að allir séu komnir í náttfötin og orðnir afslappaðir. Svefngalsinn sé bestur því þá sé dansað, fíflast og hlegið að öllum sköpuðum hlutum.

„Þau eru alveg einstaklega góð hvort við annað og miklir vinir. Þrátt fyrir aldursmuninn þá er með ólíkindum hvað hann Sigurður Viðar hugsar vel um litlu systur sína og hvað hann nennir að leika við hana. Hann vill til dæmis fá að vekja hana á hverjum morgni og vera fyrstur til að knúsa hana. Vissulega stríða þau hvort öðru líka en þau eru fljót að fyrirgefa og fallast í faðmlög.

Uppáhaldsmaturinn á heimilinu?

Það getur verið svolítið flókið þar sem litla konan elskar mat og getur borðað nánast allt á meðan sá stóri gæti lifað á grjónagraut. En svona til að gera alla fjölskylduna sadda og sæla er kjötsúpa svarið!

Bestu stundirnar?

Þær eiga sér án efa stað upp í sumarbústað, þegar allir eru komnir í náttfötin og orðnir afslappaðir og helst með dass af svefngalsa. Þá er dansað, fíflast og hlegið af öllum sköpuðum hlutum. Svo eru allir upp á sitt besta úti í náttúrunni líka.

Mesta áskorunin?

Er að sleppa takinu og átta sig á því að maður er bara hér til að kenna þeim góð gildi, sýna þeim ást og kærleika og leiðbeina þeim vonandi rétta leið í lífinu.

Mikilvægasta lexían?

Það er nú það, mér finnst ég vera að læra nýja hluti á hverjum degi og tileinka mér nýjar aðferðir sem móðir. Ætli mikilvægasta lexían hingað til sé ekki sú að vera heils hugar með börnunum mínum þegar ég er með þeim en ekki að sinna öðrum hlutum í leiðinni. Ég fæ það svo margfalt til baka í gleði og þakklæti.

Ef þú gætir gefið verðandi foreldri eitt gott ráð – hvað yrði það?

Að hlusta á börnin sín, þau eru svo stórkostlega klár og vel gefin og hafa margt til málanna að leggja. Þau þora að tjá tilfinningar sínar og það ber að virða. Svo hafa þau bara svo fallega sýn á lífið og við getum lært mikið af þeim!

X