Loading

„ELDEY ER DRAUMABARN Í FLUGVÉL” SEGIR RAGNHILDUR STEINUNN

Ferðalög geta verið það skemmtilegasta sem að fjölskyldan gerir saman – og jafnframt það erfiðasta. Hljómar háalvarlega en það vita flestir þeir foreldrar sem hafa farið með börnin sín í langar flug- eða bílferðir að nauðsynlegt er að skipuleggja sig vel í stað þess að treysta eingöngu á lukkuna. Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir hefur verið iðin við ferðalagakolann frá fæðingu dóttur sinnar, Eldeyjar Erlu, sem fagnar tveggja ára afmæli sínu í haust. Fjölskyldan hefur þeyst um heiminn þveran og endilangan en Ragnhildur segir það vera lítið mál þar sem Eldey sér algjört draumabarn í flugvél. Hún lumar þó á nokkrum góðum ráðum sem vert er að apa eftir.

„Við reynum alltaf að bóka löng flug á svefntímanum hennar þannig að oftast fer hún bara að sofa. Það hefur eiginlega komið okkur á óvart hvað þetta orkumikla barn getur hagað sér vel í flugvélum,” segir Ragnhildur en fjölskyldan er nýkomin heim eftir langa reisu um Asíu og Mið-Austurlönd. Við lögðum fyrir hana nokkrar laufléttar spurningar og svörin létu ekki á sér standa:

Áður en þú ferð í langt flug með barn er nauðsynlegt að … barnið sé ekki nýbúið að taka lúr. Við reynum alltaf að láta barnið taka lúrinn sinn í vélinni. Ekki gera þau mistök að leyfa barninu að fara labba um vélina strax í upphafi flugsins, geymið það tromp eins lengi og hægt! Við tökum líka alltaf með rúsínur, smá cheerios og svo límmiða og límmiðabók! Það er ótrúlegt hvað litlum fingrum finnst gaman að leika sér með límmiða.

Uppáhaldsmaturinn á heimilinu? Eldey elskar grjónagraut! Við gerum líka alltaf lasagna einu sinni í viku því það er í miklu uppáhaldi.

Bestu stundirnar? Bestu stundirnar eru þegar við erum öll saman! Það er bara eitthvað svo dásamlegt við það þegar foreldrar upplifa eitthvað saman með barninu. Það þarf ekki mikið til þess að gleðja lítið hjarta, sandkassaferð eða fjölskylduferð á bókasafnið getur glatt alla fjölskyldumeðlimi.

Mesta áskorunin? Mesta áskorunin er að segja „Nei” og standa við það.

Mikilvægasta lexían? Ég hef lært að treysta á sjálfa mig í barnauppeldinu og fylgja minni eigin sannfæringu. Það segir engin þér betur en þú sjálfur hvað er þínu barni fyrir bestu.

Ef þú gætir gefið verðandi foreldri eitt gott ráð – hvað yrði það? Úff þetta er erfið spurning…. Njótið hverrar einustu stundar, tíminn líður allt of hratt.

X