Loading

ER BARNIÐ Í FYRSTA SÆTI?

Fjölskyldumynstur í dag getur verið afskaplega flókið en samkvæmt Önnu Sigríði Pálsdóttur, presti í Dómkirkjunni, eru flest vandamál leysanleg ef leitað er hjálpar í tæka tíð. Þegar fólk hefur tekið ákvörðunina um að skilja er sjaldgæft að snúið sé til baka en hvernig getum við forðast að vandamálin verði of stór og að börn lendi á milli í deilum foreldranna. Lausnin er tjáning en þótt það hljómi svo einfalt er raunin oft alls ekki sú.

Börn og skilnaður

„Við skilnað er börnum svo eðlilegt að taka málstað þess foreldris sem að situr eftir í sárum og lenda í svona tryggðaklemmu á milli foreldra sinna. Barnið verður kannski mjög reitt út í það foreldri sem fór en þykir samt vænt um það, þá kemur það fyrir að barnið vill ekki vera í sambandi við það foreldri sem fór til þess að sýna hinu foreldrinu tryggð. Kannski er jafnvel sú krafa frá þeim sem farið var frá til barnanna sinna að koma ekki nálægt þessari konu eða manni. Þá lenda börnin í þessari tryggðakreppu þar sem þau finna fyrir reiði en geta ekki látið hana í ljós. Það er svo mikilvægt að geta sagt: „Þú særðir mig, ég er reið/ur út í þig en ég ætla ekki að taka þig út úr lífi mínu.“ Og það sem meira er að börn þurfa að geta sagt þetta við foreldra sína. Við skilnað geri ég fólki grein fyrir því að það verður alltaf fjölskylda af því að það á börn saman. Að maður geti ekki skilið alfarið við manneskju sem maður á börn með. Maður þarf að finna flöt til þess að barninu líði vel þó að það njóti ekki beggja foreldra dagsdaglega.“

„Ég er skilin og á þrjá syni“, segir Anna og bætir við þau sem foreldrar hafi lagt mikla áherslu á það að þeir lendi ekki á milli þeirra og þurfi aldrei að fara í gegnum þá stöðu. „Það kemur fyrir að maður segir eitthvað sem maður hefði ekki átt að segja en það er bara af því að maður er manneskja. En ég reyni á hverjum degi að gera það ekki. Börn eru mjög viðkvæm fyrir því hvað annað foreldrið segir um hitt og þá er ég ekki bara að tala um börn á ungaaldri heldur uppkomin börn líka. Ég sé ákveðinn svip koma á syni mína ef ég segi eitthvað þar sem hallar á föður þeirra og ég reyni mitt allra besta að særa þá ekki, með því að setja þá ekki á þann stað sem þeir vilja ekki vera á gagnvart okkur.
Aðalatriðið er að fólk má ekki nota börnin sín til að toga á milli sín. Það er ómannúðlegt að setja barnið í þá stöðu að þurfa að velja á milli foreldra sinna. Hversu reiðir sem foreldrar eru hvor öðrum þá má það aldrei bitna á barninu.
Það sem guð hefur sett saman má maðurinn ekki slíta í sundur og það er ekkert sem tengir okkur jafnmikið og börnin og við höfum bara engan rétt til þess að toga þau sundur og saman. Það er bara grundvallaratriði og ég segi við fólk: Þið hafið rétt til þess að skilja samkvæmt íslenskum lögum en þið hafið ekki rétt til þess að toga börnin á milli ykkar. Það eru lög sem verja afkvæmi okkar gagnvart okkur sjálfum.“

Anna minnir á að það sé heilmikil lagni við það að geta talað saman án þess að særa hvort annað en segir jafnframt konur vera mjög oft opnar fyrir tilfinningum allra í kringum sig en gleyma sjálfum sér.

Að leita sér hjálpar

„Góðir ráðgjafar eru ekki að gefa einhver ráð, heldur eru þeir að spegla það sem þeir sjá og hjálpa fólki að horfa sjálft á aðstæðurnar. Algengur misskilningur er að ráðgjafar segi fólki að gera eitthvað, það er ekki þannig. Staða ráðgjafans er að horfa, fylgjast með og spegla, benda svo á hvar í ferlinu þessir núningsfletir hafa myndast. Hjálpa fólki að leiða hlutina fram í sjálfu sér og skoða hvað er á ferðinni. Ráðgjöf snýst um að leiða fólk inn í betri sjálfsvitund“, segir Anna og heldur áfram: „Það gerir maður með því að leiða fólki fyrir sjónir hvaða styrk það býr yfir. Það getur maður ekki gert nema að maður fái fólk til þess að lýsa sjálfu sér, draga út styrkinn og leggja til hliðar þá veikleika sem fólki finnst standa í vegi. Þegar maður finnur styrkleikann þá víkja veikleikarnir, það er ekki þar með sagt að þeir fari, hverfi, en þeir verða huldari.“

Úr viðtali við Önnu Sigríði Pálsdóttur, áður birt í Heilsunni, 4. tölublaði, 2011. Birt með góðfúslegu leyfi höfundar (Halldóru Önnu Hagalín) sem reyndar hvatti okkur til að birta þetta þar sem um nausynlegan boðskap er að ræða. Takk Halldóra snillingur!

X