Loading

Er fæðingarorlof ekki fyrir börnin?

Sæunn Kjartansdóttir skrifar beitta og nauðsynlega grein inn í Fréttablaðinu í dag sem er jafnframt inn á Vísi. Þar heggur hún í orð Þorsteins Víglundssonar um fæðingarorlofið en í viðtali við Stundina segir Þorsteinn að hann sé ekkert viss um að það sé betra að lengja fjarvistina frá vinnumarkaði, út frá starfsþróun og starfsframa. Það gæti jafnvel aukið enn frekar á kynbundna mismunun í starfsþróun.

Segir Sæunn að viðhorf félagsmálaráðherra til lengingar fæðingarorlofs varpi skýru ljósi á vanda barna: Mikilvægar ákvarðanir sem varða heill barna eru teknar á forsendum annarra. Í þessu tilviki er eins og tilgangur fæðingarorlofs hafi gleymst. Málið er að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og þörf barna fyrir foreldra sína verður nánast eins og aukaatriði. Orð ráðherra bera vitni um afstöðu til barna sem illu heilli er talin góð og gild í samfélaginu.

Sæunn segir meðal annars í greininni:

Því lengur sem ég vinn með ungbörn og foreldra þeirra því skýrara sé ég hversu lítið þol samfélagið hefur fyrir því að börn séu lítil, háð, þurfandi og truflandi. Nokkurra mánaða gömul eiga þau að sofa eins og fullorðið fólk, níu mánaða eiga börn að sætta sig möglunarlaust við að ókunnugt fólk annist þau og árs gömul viljum við gera þau að nemendum í skóla. Ekkert af þessu er út frá forsendum barna eða með hliðsjón af þörf þeirra fyrir tengsl. Sýni börn heilbrigð viðbrögð við þvinguðum aðskilnaði frá foreldrum sínum eða öðrum kvíðavekjandi aðstæðum köllum við þau erfið og skellum jafnvel á þau sjúkdómsgreiningu. Komin með greiningu er fátt um úrræði annað en biðlistar eftir þjónustu eða lyf af ýmsu tagi en íslensk börn slá ekki aðeins met í neyslu geðlyfja heldur herma nýlegar fréttir að sprenging hafi átt sér stað í ávísun svefnlyfja á börn.

Greinina í heild sinni má nálgast hér.

X