Loading

ER ÞAÐ STRÁKUR EÐA STELPA?

Flestar ófrískar konur kannast við þessa spurningu: Er það strákur eða stelpa? Einhverra hluta vegna er það orðið hið eðlilegasta mál að verðandi foreldrar kíki í pakkann og ljóstri leyndarmálinu upp samstundis. Þeir sem hafa kíkt í pakkann og ákveða að þegja eru oftar en ekki undir vökulu nálarauga ALLRA í kringum sig sem höggva eftir hverju fornafni sem notað er í þeirri vona að foreldrarnir hafi óvart talað af sér.

Þetta er dáldið spes ef maður pælir í því – af hverju er vilji þeirra ekki virtur?

Svo eru það hinir sem ákveða að kíkja ekki í pakkann. Sjálf ákvað ég að gera það og fannst það bara skemmtilegt að lifa í óvissunni. Daglega var ég spurð að því hvurs kyns væri og alltaf fannst mér ég þurfa að verja ákvörðunina. Á seinni meðgöngunni ákváðum við að gera það sama og aftur var sama spurningarflóðið.

Sjálf stend ég mig að því að spyrja ófrískar konur hvort þær gangi með stráka og stelpur – eins og það skipti raunverulega einhverju máli og pæli svo sem lítið í því af hverju ég er að spyrja. Áðan sat ég svo með ófrískri systur minni sem er komin 30 vikur á leið með þriðja barnið sitt. Fyrir á hún tvo stráka og ákvað, í fyrsta skipti, að kíkja ekki í pakkann. Hún fór mikinn enda búin að fá gjörsamlega upp í kok af spurningum. Játaði hún að fólk væri svo aggressívt við hana að henni þætti nóg um… eins og það sé sjálfsagt mál að allir viti nákvæmlega hvað er í ofninum. Að auki lætur fólk skoðanir sínar alveg miskunarlaust í ljós. „Þið hljótið að vonast eftir stelpu er það ekki?” er hún iðullega spurð að og af hjartans einlægni sagði hún mér að henni væri bara nákvæmlega alveg sama. Eins og hún ætti að verða spæld ef að þriðji stráurinn kæmi – nánast eins og hún hefði klúðrað þessu.

Ég held að þetta sé alveg rétt hjá henni…

Mér finnst samt áhugaverðara að pæla í af hverju við erum svona forvitin.

Ég veit ekki svarið en ætla sjálf að hætta að spyrja að þessu – að minnsta kosti þar til systir mín er búin að eiga!

X