Loading

ERTU Í KRUMMAFÓT ELSKU BARN?

„Ertu í krummafót?” er spurning sem flestir kannast við að hafa fengið eða spurt á einhverjum tímapunkti. Henni fylgja yfirleitt sposk augu ásamt því sem spyrjandinn hallar undir flatt og setur upp skakkt bros. Nú er ég móðir og sem slík hef ég staðið sjálfa mig að því að spyrja dóttur mína gjarnan þessarar sömu spurningar  þegar við stingum nefinu út um útidyrahurðina. Nánast undantekningarlaust er svarið já. Þetta þykir mér meira en í meðallagi athyglisvert.

Hvað er það við krummafót sem börnum þykir heillandi? Er þetta allt saman tilviljun eða er eitthvað við fót Hrafnsins sem höfðar frekar til barna en þeirra fullorðnu ? Með þessar vangveltur rúllandi um í höfðinu ákvað ég því að gera litla og mjög svo óvísindalega rannsókn. Þrjá daga í röð stillti ég skóm dóttur minnar upp þannig að allar hliðar vísuðu á rétta staði samkvæmt venju. Alla dagana horfði ég svo hana taka vinstri skóinn og setja hann á hægri fótinn og hægri svo á vinstri. Svo smeygði ég mér í ósýnilega hvíta sloppinn minn, nagaði ímyndaða blýantinn minn og setti upp þykjustu gleraugun. Var meira  að segja næstum því búin að kaupa mér slatta af hvítum músum svo mikið lifði ég mig inn í hlutverkið. Þannig stóð ég í talsverðan tíma meðan ég fór yfir niðurstöður „rannsóknar” minnar.

Niðurstaðan varð sú að þetta væri ekki nóg til þess að draga ályktanir. Ég yrði sjálf að prófa að ganga í krummafót áður en ég gæti byrjað að þykjast vita um hvað ég væri að fást við. Svo varð og að ég prófaði að vera í krummafót einn morguninn á leiðinni í vinnuna.  Sú reynsla var vægast sagt áhugaverð. Vissulega var þetta öðruvísi og ágætis tilbreyting í hversdagsleikann. Nokkur skrítin augnaráð og smá kjánahrollur er öllum hollt að upplifa öðru hverju. Eftir þetta taldi ég mig hafa að minnsta kosti færst eitthvað nær því að geta svarað spurningunum sem ég spurði hér að ofan. Að snúa skónum þannig að þeir myndi krummafót virðist liggja betur fyrir börnum en hin „rétta” leið. Hvort sem það er af fagurfræðilegum ástæðum, tilviljun ein, eða það að þeim þykir það einfaldlega töff verður ekki svarað með vissu í þessum pistli. Það er hinsvegar á hreinu að á ákveðnum aldri lærum við hina réttu leið til þess að vera í skóm og förum líklegast aldrei aftur í krummafót á ævinni. Ég hef því ákveðið að halda á sunnudaginn 6.maí 2012 upp á dag krummafótsins. Þá munu allir á mínu heimili rokka krummafótinn, einhverjir í seinasta sinn en aðrir munu eiga það eftir í nokkur skipti í viðbót.

– –

Sandra Hrafnhildur Harðardóttir er 26 ára gömul og á ættir að rekja til Þingeyjarsýslu. Hún ólst upp á Seyðisfirði, þeim fallega stað og stundar nám við Háskóla Íslands við mannfræði. Hún stofnaði góðgerðarframtak sem ber nafnið Vonarnisti síðasta janúar. Hún á eina litla skottu, hina 3ja ára Amelíu Rún og svo er annað væntanlegt heiminn í enda október.

X