Loading

ERUM VIÐ AÐ OFNOTA ORÐIÐ EINELTI?

Hvað er einelti? Öll fræðsla og forvarnir um einelti er til góðs, en við verðum að varast að ofnota ekki orðið. Með ofnotkun er hætta á að við berum röng skilaboð til barnanna okkar.

Einelti er endurtekið áreiti eða ofbeldi sem framið er af einum (eða fleirum) gagnvart öðrum. Þetta er aðför (eða aðfarir) sem varir yfir og jafnvel í langan tíma og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Einelti er mjög alvarlegt ofbeldi sem ber að varast og grípa inn í um leið og þess verður vart.
Á tímum veraldarvefsins og „facebook“ eru skoðanaskipti tíð. Fólk póstar skoðunum sínum inn á heimasvæði sitt og er svo ásakað fyrir að vera að leggja einstakling í einelti við það eitt að segja skoðun sína einu sinni. Að mínu mati getur það ekki talist einelti.

Með innblæstri frá einni vinkonu minni á „facebook“ ákvað ég að halda áfram með skrif mín á þessum pistli, en síðustu daga hefur fólk eins og ég gert ýmislegt til að hvetja hvert annað til að styrkja björgunarsveitirnar. Hvatningin hefur einkum falist í að versla frekar af þeim en einkaaðilum. Það, að ég sé á móti því að einkaaðilar selji jólatré og flugelda, þýðir ekki það að ég sé að leggja einkaaðila í einelti. Ef svo væri þá hef ég heldur betur verið gerandi allt mitt líf með því að segja skoðun mína. Breytingin er einfaldlega sú, að með tilkomu veraldarvefsins, sjá fleiri og heyra mínar persónulegu skoðanir en gerðu áður. Örn Árnason er frábær, snillingur með meiru, og má alveg selja sínar flottu tertur fyrir mér. Ég vel bara að versla við björgunarsveitirnar enda er þetta þeirra helsta fjáröflunarleið.

Val á íþróttamanni ársins bar einnig á góma. Fólk var misánægt með kjör íþróttafréttamanna og sagði sína skoðun. Með þeirri skoðun sinni áttu þeir að vera að leggja íþróttafréttamenn eða íþróttamann ársins í einelti? Pössum okkur á því að ofnota ekki orðið einelti, einelti er endurtekið áreiti eða ofbeldi.
Hetja ársins var valin af lesendum DV. Fólk hafði misjafnar skoðanir á því vali – sumir vel sáttir en aðrir mjög ósáttir. Allt eru þetta mjög heilbrigð og eðlileg skoðanaskipti. En það þýðir samt sem áður ekki að þeir sem voru ósáttir við þessi kjör séu sammála kynbundnu ofbeldi og/eða nauðgunum.

Þeir sem báðu fólk um að hugsa sig um, áður en fólk deildi myndum að látnum og limlestum börnum, fengu að heyra að þeim væri alveg sama um stríð og ástandið í heiminum. Þeir sem óska eftir því að sjá ekki myndir af látnum börnum eru kannski viðkvæmari fyrir því en aðrir. En með því er ekki verið að samþykkja ofbeldi gagnvart börnum.
Við erum öll mannleg. Það sem við erum að tjá okkur um á vefnum eða annars staðar er yfirleitt það sem okkur er efst í huga og snertir okkur mest. Það þýðir samt ekki endilega að við, eða þeir sem eru annarrar skoðunar, séu einhvers konar skrímsli sem leggi einhvern eða einhverja í einelti.

Reynum að muna að lífið er ekki aðeins í svart/ hvítu, fallegt eða ljótt; heldur allt þarna á milli sem á að eiga jafnan rétt á sér. Skoðanaskipti á vefnum á ekki að vera einelti. Aftur á móti ef það er gert aftur og aftur, síendurtekið og fólk rakkað niður sem síst á það skilið, þá er það einelti. Uppfærslur og fréttir sem settar eru upp aftur og aftur, tengjast einum aðila til þess eins að gagnrýna hann og setja út á, getur orðið að einelti. Þarna er stór munur á sem við þurfum að passa okkur á að greina á milli. Ofnotkun á orðinu einelti er ekki til góðs.
Berum virðingu fyrir hvort öðru, skoðunum og öllum í kringum okkur. Það er enginn yfir annan hafinn í þessu lífi. Við þurfum að læra að koma fram við náungann eins og við viljum að komið sé fram við okkur sjálf. Lærum að taka leiðbeiningum og gagnrýni og notum það til góðs.

Einelti er dauðans alvara og mjög alvarlegt ofbeldi, en einelti er ekki það að tjá skoðun sína á einhverju ákveðnu í eitt skipti, heldur endurtekið áreiti gagnvart einum aðila með ofbeldi eða niðrandi athugasemdum. Uppfærslur keðjubréfa er upphaflega skoðun fólks og jafnvel hvatning sem getur síðan þróast út í að vera áróður. Þá er gott að við hugsum öll um að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

– – –

Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X