Loading

Eyrnabólga

Einn algengasti – og um leið óþægilegasti sjúkdómur sem herjar á lítil börn eru svokallaðar miðeyrnabólgur. Talið er að um 80% barna fái eyrnabólgu á fyrsta aldursárinu og um 10% fá hana ítrekað. Eyrnabólga er jafnframt ein algengasta ástæða komu barna til lækna. Eyrnabólga eða miðeyrnabólga skiptist í tvennt: Annars vegar bráðamiðeyrnabólgu eða vökvi í miðeyra.
Munurinn er eftirfarandi:
Vökvi í miðeyra: Myndast eftir stíflu í kokhlust og síðar undirþrýsing í miðeyranu. Hljóðhimnan dregst þá inn og getur orðið mött og þykknað. Einkennin eru mun minni en við bráðamiðeyrnabólgu en er oft talin geta skýrt næturóværð hjá ungbörnum. Vökvi í miðeyra læknast oftast af sjálfu sér innan þriggja mánaða. Ef sjúkdómurinn er langvarandi (þrír til sex mánuðir samfellt) hjá ungum börnum er hugað að ástungu eða ísetningu röra í hljóðhimnuna.
Bráðamiðeyrnabólga: Er í raun sami sjúkdómur og hér að ofan, en verri. Sjúkdómsgangur er hraður og kemur oft í kjölfarið á öndunar-færasýkingu af völdum veira. Þannig er vökvi í miðeyra oftast undanfari bráðamiðeyrnabólgunnar þar sem við bætast ákveðin sýkingareinkenni. Eyrnaverkir eru algengir, mikill þrýstingur vegna graftarmyndunar sem oft rýfur hljóðhimnuna. Í 50-70% tilfella er um að ræða bakteríu- eða veirusýkingu. Talað er um endurtekna sýkingu ef barnið fær að minnsta kosti þrjár sýkingar á þremur mánuðum eða fleiri en fjórar á ári. Venjulega gengur bráðasýkingin niður á fáum dögum og vökvi eða gröftur skolast niður í gegnum kokhlustina. Oftast er sýklalyfjum ávísað til barna yngri en eins árs ef örugg greining liggur fyrir. Þess má þó geta að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur hvatt til minni sýklalyfjanotkunar vegna hratt vaxandi þróunar sýklalyfjaónæmis. Það á þó eingöngu við um sýkingar sem læknast hvort eð er af sjálfu sér.

X