Loading

FÁ EKKI AÐ KOMA MEÐ BÖRNIN HEIM – HJÁLPARKALL

Eftir að hafa dreymt um að verða foreldrar í fjölda ára var draumurinn loksins innan seilingar þegar að hjónin Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir og Friðrik Kristinsson fengu jákvætt svar um ættleiðingu frá Kólumbíu. Þau héldu út til að sækja tvær stúlkur, Helgu Karólínu fædda 2007 og Birnu Salóme fædda 2009 í nóvember í fyrra en snuðra hljóp á þráðin og hafa þarlend yfirvöld tafið afgreiðslu málsins og sagt að um kerfisgalla sé að ræða. Ekki er á þessu stigi vitað hvernig málið fer en fjölskyldan hefur beðið milli vonar og ótta í að verða hálft ár. Hér að neðan er saga þeirra tekin af Facebook síðu þeirra en vinir þeirra hafa hrundið af stað söfnun handa þeim þar sem vistin ytra er skiljanlega kostnaðarsöm og erfitt að þurfa að hafa áhyggjur af peningum á meðan framtíð fjölskyldunnar er í húfi.

Við deilum hér með sögu þeirra og vonum að sem flestir geti lagt hönd á plóg.

Facebook síða þeirra er hægt að nálgast HÉR.

Saga þeirra:

Hjónin Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir og Friðrik Kristinsson fengu upplýsingar um dætur sínar 25. nóvember 2011.
Eldri dóttir þeirra er fædd 14. júlí 2007 og heitir Helga Karólína Friðriksdóttir. Helga í höfuðið á föðurömmu sinni og Karólína er kólumbíska nafnið hennar. Yngri dóttir þeirra er fædd 22. ágúst 2009 og heitir Birna Salóme Friðriksdóttir. Birna í höfuðið á móðurömmu sinni og Salóme er kólumbíska nafnið hennar.

Hjónin lögðu af stað í draumaferðina sína til Kólumbíu 16. desember 2011 og fengu dætur sínar í fangið 20. desember. Stelpurnar þeirra eru alveg yndislegar og sést alveg langar leiðir að þeim er svo innilega ætlað að verja lífinu saman. Draumur hjónanna varð loksins að veruleika.

Þetta var áramótarkveðja fjölskyldunnar á heimasíðu þeirra sem okkur finnst lýsa mjög vel hamingju þeirra:

„Gleðilegt nýtt ár kæra fjölskylda og vinir og takk fyrir gamla árið. Árið 2011 var mjög viðburðarríkt ár fyrir okkur hjónin. Það sem var dásamlegast í öllum heiminum er að Guð fann loksins heimilsfang okkar hjóna og gaf okkur litlu yndislegu dæturnar okkar og erum við óendanlega þakklát fyrir það.

Um hver áramót seinustu níu árin hefur verið hugsað um og beðið og vonað að næsta ár verði okkar barnalán. En í ár þegar klukkan var 00:00 heima á Íslandi sátum við og sungum fimm litlir apar með litlu kraftarverkunum okkar og þurftum ekki lengur að biðja og vona því þær voru komnar til okkar. Það gerir okkur rosalega hamingjusöm. Við hlökkum til að taka á móti nýju ári og erum viss um að það verði frábært ár fyrir okkur fjölskylduna og aðra í kringum okkur.”

Hjónin fóru út til Kólumbíu fyrir milligöngu Íslenskrar ættleiðingar sem er eina ættleiðingarfélagið á landinu. Ísland hefur undirgengist Haagsamninginn frá 1993 og eru allar ættleiðingar á forsendum hans. Innanríkisráðuneytið hefur löggilt Íslenska ættleiðingu til að sinna milligöngu vegna ættleiðingar til landsins. Ísland og Kólumbía (ICBF ríkisrekin ættleiðingarstofnun í Kólumbíu) hafa verið í samstarfi vegna ættleiðinga um árabil en fyrstu börnin komu til Íslands með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar árið 2003.

Á árinu 2006 ákváðum hjónin að ættleiða frá Kólumbíu og lögðum þau inn formlega umsókn 15. janúar 2007. Þá var þeim sagt að biðtíminn eftir börnum frá Kólumbíu væri 2 ár og kostnaðurinn við ferðina út væri í kringum 1 – 1,5 milljón.

En svo leið og beið og biðin varð að 5 árum og vorum þau einnig búin að fá upplýsingar um að kostnaðurinn við ferðina út væri búinn að hækka upp í 2,5 – 3 milljónir.

Eftir að fólk tekur við börnunum sínum í Kólumbíu fer ættleiðingarmálið fyrir dómstólana þar og síðan þurfa börnin að fá útgefin vegabréf og loks vegabréfsáritun heim til Íslands. Útgefið er að ferlið í landinu tekur 4 – 6 vikur.

Hjónin hafa verið í Kólumbíu frá því 17. desember og ferlið því búið að taka yfir 6 mánuði. Hjónin fengu mjög erfiðan dómara sem tók fyrir þeirra mál út í Kólumbíu. Sögusagnir eru um að hann sé í “stríði” við ICBF ríkisreknu ættleiðingarstofnunina og reyni að gera það sem hann getur til að klekkja á henni. Hann virtist allavega gera allt sem hann gat til að tefja mál fjölskyldunnar og svo að lokum endaði málið á versta veg í dómsstólnum hjá honum.

Tekið af heimasíðu fjölskyldunnar þar sem okkur þótti þessi færsla lýsa best aðstæðum þeirra úti í Kólumbíu:

„Við höfum ömurlegar fréttir, dómarinn er búinn að gefa út dóminn og ógilti hann fyrri dóm ICBF að stelpurnar væru lausar til ættleiðingar. Við erum í algjöru sjokki hérna og vitum við ekki hver næstu skref verða. Olga lögfræðingur fékk fréttir af því á miðvikudaginn 6 júní að dómarinn myndi ekki dæma okkur í hag. Hún sendi okkur þá þennan póst: I am sorry, we have to go to the Court. Við fengum náttúrulega svakalegt áfall og hringdum strax í hana til að athuga hvað væri í gangi. Hún sagði okkur þá að dómarinn væri búinn að ógilda fyrri dóm en hún vissi ekkert meir. Olga fékk svo dóminn til sín seinnipartinn á föstudaginn 8. júní. Hún sagðist ætla að nota helgina í að fara yfir hann, það var 3 daga helgi hér. Hún fer og hittir yfirmann hjá ICBF ættleiðingarstofnun á miðvikudaginn til að fara yfir málið með honum. Líklegast fáum við einhver meiri svör eftir þann fund en hún hefur sagt okkur að áfrýjun á dóminum muni taka mjög langan tíma en hefur ekki geta sagt okkur það neitt nánar.

Olga segir að mál okkar sé ekkert öðruvísi en önnur ættleiðingarmál hér í kerfinu. Hún segir að dómarinn hafi metið það svo að það hafi verið gerð mistök í ferlinu og verið flýtt sér of mikið með málið. Hún telur hins vegar og ICBF ættleiðingarstofnun að það sé ekki rétt hjá honum og að aðrir dómarar hefðu aldrei dæmt svona í málinu. Við höfum sjálf ekki lesið dóminn þar sem hann er á spænsku en fáum hann vonandi fljótlega úr þýðingu.

Það er ekki komið í ljós hvort við fáum að hafa stelpurnar hjá okkur meðan málinu er áfrýjað eða hvort við þurfum bara að fara heim og bíða þar. Ef við fáum ekki að hafa þær hjá okkur þá þurfa þær að fara á barnaheimili eða til fósturfjölskyldu því það er engin hér sem gerir tilkall til þeirra.

Hver hefði trúað því að við gætum virklega lent í svona martröð. Við biðum róleg í röð í 5 ár, fórum eftir öllu því sem við áttum að gera sama hversu óréttlát og niðurlægjandi okkur þótti það vera, því við trúðum því að á endanum myndum við fá drauminn okkar uppfylltan. Við getum ekki ímyndað okkur lífið án dætra okkar en það sem okkur finnst ennþá hræðilegri tilhugsun er að stelpurnar okkar fái ekki að halda áfram að eiga stóra fjölskyldu sem elskar þær og að þær verði bara tvær aleinar í heiminum.

Við erum búin að lofa dætrum okkar á hverjum degi frá 20. desember að við munum alltaf alltaf vera fjölskylda. Við segjum við þær á hverju kvöldi áður en þær fara að sofa; Pabbi, Mamma, Helga og Birna eru fjölskylda, Við verðum alltaf alltaf saman og Mamma og Pabbi elska Helgu og Birnu alla leiðina til tunglsins og tilbaka. Þær tala um það oft á dag að við séum fjölskylda og að við verðum alltaf alltaf saman. Birna segir: alltaf alltaf Pabbi, alltaf alltaf Mamma. Svo segir hún elska Mamma og elska Pabbi. Helga segir: Pabbi, Mamma, Helga og Birna eru fjölskylda alltaf alltaf, engin annar – Pabbi elskar Helgu, Mamma elskar Helgu, Svo segir hún: Ég elska líka Pabba, Ég elska líka Mömmu.

Þær tala um það á hverjum degi að þær eiga heima á Íslandi, tala um fjölskylduna sína þar og dótið sem bíður þeirra heima í húsinu okkar. Við höfum alltaf sagt við þær að við förum öll heim saman í stóru flugvélinni og eru þær mjög spenntar fyrir því og tala mjög oft um það.

Þegar við sóttum þær til ICBF þá vissu þær að við værum Pabbi þeirra og Mamma, þær bentu á myndirnar af okkur, sem við vorum búin að senda þeim, og vissu sko alveg hverjir voru á þeim.

Vonandi þurfum við ekki að brjóta öll þessi loforð sem við höfum gefið þeim. Við verðum víst að undirbúa okkur fyrir það allra versta en vonum það allra besta. Okkur líður eins og það sé verið að slíta úr okkur hjartað.”

Það sem gerðist í þeirra máli er eitthvað sem á ekki að vera hægt að komi fyrir og er í raun versta martröð sem fólk getur lent í sem er að ættleiða.

Ferlið sem bíður fjölskyldunnar núna verður mjög langt og strangt og fannst okkur þessi færsla af heimasíðu fjölskyldunnar skýra það best út:

„Olga lögfræðingur er búin að segja okkur hver næstu skref geta verið í okkar máli. Það eru 3 dómstólar sem mál okkar getur farið í. Fyrsti dómstólinn sem byrjað verður á að fara í er “Hæstiréttur” í Medellin. Sá réttur getur sagt að hann vilji ekki áfrýja málinu og þá nær það ekki lengra í þeim rétti. Eða þeir geta tekið málið fyrir og annað hvort verið sammála fyrri dómi eða dæmt okkur í vil og við getum farið heim. Meðan málið er í þessum rétti megum við vera með stelpurnar. Þessi dómsstóll hefur engin tímamörk þannig að við vitum ekki hvort þetta tekur 1 mánuð eða 6 mánuði.

Ef að “Hæstiréttur” í Medellin vil ekki taka við áfrýjunni eða er sammála fyrri dómi þá fer málið fyrir rétt sem heitir “Tutela”. Ef málið þarf að fara fyrir þennan rétt þá skilst okkur að við megum ekki hafa stelpurnar á meðan. Tutela er réttur sem vinnur mjög hratt, tæki jafnvel bara 1 mánuð. Ef hann dæmir okkur í vil þá fáum við stelpurnar aftur og förum heim. Ef hann dæmir okkur ekki í vil þá fer málið fyrir hæstarétt í Kólumbíu.

Ef hæstiréttur í Kólumbíu dæmir okkur í vil þá komum við aftur hingað og sækjum stelpurnar. Ef hann dæmir okkur ekki í vil þá þarf ICBF að taka aftur upp ættleiðingarferli stelpnanna eins og dómurinn kveður á um. Ef að niðarstaðan er sú þegar ICBF er búið að taka aftur upp ættleiðingarferlið að þær séu ættleiðingarhæfar þá komum við og sækjum þær. Ef þær teljast ekki ættleiðingarhæfar þá verða þær áfram hjá ICBF og verða aldrei ættleiddar og verða í umsjón ICBF þangað til þær verða 18 ára. Við höfum ekkert spurt út í tímamörk á þessu þar sem það er ekkert að koma að þessu á næstunni og verður vonandi bara aldrei.

Við vonum auðvitað af öllu hjarta að okkur nægi að fara fyrir “hæstarétt” í Medellin. Það er langt og erfitt ferli sem tekur núna við hjá okkur en við munum aldrei gefast upp meðan það er ennþá von. Það er mjög gott að vita af ykkur öllum þarna á hliðarlínunni og erum við ekki frá því að allar fallegu kveðjurnar og jákvæðu straumarnir hafi aukið talsvert á kraftinn og orkuna sem við þurfum klárlega á að halda þessa dagana.”

X