Loading

FAÐMLAGIÐ

Klukkan er nokkrar mínútur yfir fimm. Ég kem heim eftir erfiðan skóladag, búinn að skila af mér verkefninu sem varð til þess að ég gat lítið sofið kvöldið áður. Á stofugólfinu situr dóttir mín, rétt að verða 11 mánaða gömul og leikur sér með dótið sitt. Um leið og hún heyrir í hurðinni opnast lítur hún á mömmu sína og kallar „babbi!“ Því næst skríður hún eins hratt og hún getur að forstofunni til að gá hvort að þetta sé ekki alveg örugglega pabbi. Jú, þarna stend ég, gjörsamlega búinn á því.

Ég tek litla skottið upp og knúsa hana. Aldrei þessu vant knúsar hún mig fast á móti og fiktar í hárinu á mér. Hún hefur ekki verið mikið fyrir að knúsa mig hingað til, því að ég er alltaf að grínast í henni og hlæja. Hún leitar til mín þegar hún er í galsa eða ærslafull og veit að ég er til í að leika mér með henni.

Þessa síðustu daga hef ég hinsvegar ekki verið eins mikið heima og venjulega, út af skólanum. Við feðginin erum vön að eyða miklum tíma saman nú þegar mamman er farin að vinna frá hádegi og fram yfir háttatímann skottunnar, enda fæðingarorlofið búið. Þar sem að dóttirin hefur ekki verið mikið fyrir að kúra hjá mér, þá kemur það mér á óvart hversu mikið hún knúsar mig. Hún er greinilega mun ánægðari með að hafa mig heima heldur en ég geri mér grein fyrir. Því þó að mömmufang sé alltaf best, þá þýðir það ekki að pabbi sé eitthvað minna mikilvægur. Hans hlutverk er bara annað.

Síðasta sumar, þegar mamman var heima í fæðingarorlofi, þá var mitt hlutverk lítið. Vissulega gat ég róað hana betur niður en aðrir, en ég komst ekki með tærnar þar sem mamman var með hælana. Svona er þetta í raun enn þó að skottan sé farin að hleypa fleirum nálægt sér, eftir að hún byrjaði hjá dagmömmu. Þessvegna var það svo gott að finna hvað  hún knúsaði mig fast og lengi, knús sem ég hef ekki séð neinn fá áður frá henni. Ég hef mitt hlutverk sem pabbi, það besta og mikilvægasta sem ég fæ nokkurn tíma úthlutað.

Rögnvaldur Már

X