Loading

FÆDDI BARN Á BRÚÐKAUPSDAGINN

Við höfum heyrt um börn sem fæðast á brúðkaupsafmæli foreldra sinna – en það eru ekki margir sem afreka að fæðast á sjálfan brúðkaupsdaginn. Það gerðist þó á Bretlandi á dögunum þegar Danielle Clewlow rétt náði upp á fæðingardeild eftir bruðkaupið.

Danielle var gengin 38 vikur með annað barn sitt og unnusta (nú eiginmanns) síns, Arons. Fyrir á parið dreng sem að fæddist á tilsettum tíma.

„Ég fór einn dag framyfir síðast þannig að við töldum okkur örugg að bóka brúðkaupið á 38 viku. Ég reiknaði ekki með að hafa mikinn tíma í brúðkaupsundirbúning eftir að barnið fæddist þannig að við ákváðum að gifta okkur meðan ég var ófrísk,” segir Danielle.

Brúðkaupsdagurinn rann upp og sagðist hún hafa byrjað að finna fyrir verkjum strax um morguninn.

„Verkirnir ágerðust en ég var samt alveg að þrauka þetta. Í athöfninni sjálfri var eiginlega orðið augljóst að mér leið ekkert alltof vel og ég held að sumir gestanna hafi verið farnir að vorkenna mér. Ég var samt staðráðin í að klára þetta enda kakan tilbúin, veislusalurinn bókaður og gestirnir mættir,” segir Danielle en hún fór á endanum upp á fæðingardeild klukkan hálf sex og klukkutíma síðar fæddist heilbrigður drengur.

Móður og barni heilsaðist það vel eftir fæðinguna að þau fóru strax heim – en komu þó við í veislunni – gestum til mikillar gleði. Þar beið þeirra brúðartertan en búið var að bæta styttu af litlu barni ofan á hana.

X