Loading

FÆÐING ER FERLI SEM EKKI ER HÆGT AÐ STJÓRNA

Sögufræðilega erum við á botni hyldýpisins þegar kemur að fæðingum hefur Michel Odent, franskur fæðingarlæknir sem nú er kominn á eftirlaun, margoft sagt. Hann ætlar að halda fyrirlestur á laugardaginn á Hótel Reykjavík Natura og færa rök fyrir máli sínu. Titill fyrirlestrarins er „Childbirth: Are we at the bottom of the abyss“ eða „Barnsfæðing: Erum við á botni hyldýpisins“.

Aldrei fyrr hefur inngripatíðni í fæðingum verið svona há, langalgengasta inngripið er þegar konum er gefið dreypi og keisaraskurður. Inngrip á við gangsetningu og keisara er óhugsandi án afleiðinga. Aldrei fyrr hafi verið jafn mikil þörf fyrir vakningu þegar komi að náttúrulegum fæðingum, þ.e.a.s fæðingar án inngripa.
„Fæðing er ferli sem er ekki hægt að stjórna og konur þurfa frið til þess að fæða börnin sín. Allir stuðningsaðilar geta truflað þetta ferli, hvort sem það er starfsfólk eða aðrir og ekki síst myndavélarnar og gera fæðandi konu erfiðara fyrir að fæða.” segir Odent.

„Fólk horfir á fæðingarvídeo og gónir á myndirnar og missir af því allra mikilvægasta að meðan á barnsfæðingu stendur er mikilvægt fyrir konu að fá næði. Mónitorar, myndavélar, spjall og annað áreiti gerir það að verkum að kona nær ekki að slökkva á sér og þannig kalla fram hormóna s.s. oxytósín, sem hjálpa til í fæðingu.”
Það kemur Odent ekki á óvart að fæðingar í dag verði sífellt erfiðari og sársaukafyllri því skilning á fæðingarferlinu vanti. Hann telur lykilinn að auðveldri fæðingu vera að fæðandi kona hafi gott næði með engan viðstaddan nema hljóða ljósmóður úti í horni að fylgjast með, svona móðurímynd. Ákjósanlegast sé að hún prjóni því endurtekin athöfn eins og að prjóna minnkar adrenalín og mikilvægt sé að ljósmóðirin sjálf framleiði eins lítið magn adrenalíns eins og hægt er.

Michel Odent hefur verið viðriðinn fæðingar í fimm áratugi og verið viðstaddur yfir 15 þúsund spítalafæðingar. Hann hefur lengi verið talsmaður náttúrulegara fæðinga og er frumkvöðull í vatnsfæðingum. Hann hefur birt fjöldan allan af fræðigreinum í læknatímaritum meðal annars um mikilvægi brjóstagjafar fyrsta klukkutímann eftir fæðingu.
Nýjasta bókin hans, Childbirth in the Age of Plastics, kom út í fyrra en hann hefur gefið út þrettán bækur.

Michel Odent hefur í raun umbylt vinnuumhverfi sínu og haft mikil áhrif á fæðingarumhverfið um heiminn allan. Hann hefur haft áhrif á hugsunarhátt margra gagnvart fæðingu, þ.á.m. heilbrigðisstarsfólks, stuðningsaðila og mæðra. Michel Odent hefur vakið marga til umhugsunar um mikilvægi fæðingarumhverfisins s.s. að konan fái næði, sé örugg, fái stuðning, hljótt og rólegt umhverfi, þar sem ekki er of bjart né of kalt, og konur fá þá tækifæri til að framleiða eigin hormón og í réttum mæli. Það má því segja að Michel Odent hafi bæði veitt mörgum konum innblástur og styrkt þær með skrifum sínum og fyrirlestrum.

Michel Odent heiðrar okkur með nærveru sinni 28.apríl og heldur daglangan fyrirlestur á Hótel Reykjavík Natura, viðburður sem enginn áhugamaður um fæðingar ætti að láta framhjá sér fara. Viðburðurinn er opinn öllum og kostar 17.900 krónur. Innifalið í verði er að auki hádegisverður og veitingar í hléum frá SATT restaurant.
Hægt er að lesa nánar um viðburðinn og um Michel Odent inn á: http://9manudir.is/odent.
Þá er HÉR myndband þar sem Michel Odent talar um mikilvægi hormóna í fæðingu.

Hægt er að fá nánari upplýsingar á með að senda á póst odentaislandi@9manudir.is og í síma 8462392.

X