Loading

FÆÐINGARREYNSLA

Pistill eftir Soffíu Bæringsdóttur, kennara, doulu og burðarpokaspekúlant.

Konur muna fæðingarreynslu sína mjög vel. Það er eiginlega alveg sama á hvaða aldri konur eru og hve langt er síðan þær eignuðust barn, þær muna fæðinguna sína vel og greinilega.

Oft þarf ekki mikið til að kalla minninguna fram. Við mundum stund og stað, veður og aðstæður og svo framvegis. Síðast en ekki síst munum við vel hverjir voru á staðnum, hvernig þeir komu fram við okkur og hvaða tilfinning var innra með okkur. Tilfinningin lifir sterkt með okkur.

Hvernig fæðingarupplifun okkar er getur haft mikil áhrif á líf okkar, konur sem upplifa fæðinguna sína jákvætt tala um að þær hafi vaxið og fundið hvers megnugar þær voru. Ofurkonutilfinning einhver hafi hellst yfir þær og þær upplifað sig sterkari en áður. Átakanleg fæðingarreynsla getur að sama skapi haft mjög íþyngjandi áhrif á sjálfmyndina.

Það skiptir svo í rauninni ekki máli hvernig fæðingin var sem slík heldur hvernig konan upplifði hana. Í huga sumra kvenna stendur eftir hræðileg fæðing meðan sú sama fæðing er á pappírunum alveg fullkomin og frábær. Þetta getur líka verið öfugt. Fæðingar sem á „pappírunum” flokkast undir erfiðar og átakanlegar fæðingar eru í huga konunnar undursamleg stund. Upplifunin er jú það sem stendur eftir og hvað gerir góða fæðingu að góðri fæðingu er upplifunin. Kona sem upplifir fæðingu sína eins og hún hafi verið við stjórnvölinn upplifir yfirleitt góða fæðingu.

Flestar þurfum við að gera upp við okkur fæðingarreynsluna, sama hvort hún var góð eða erfið. Það er mikilvægt að vinna með erfiða fæðingarreynslu upp á að hún sitji ekki með manni, sár og erfið alla ævi. Það er jafnmikilvægt að finna tilfinningarnar sem voru erfiðar og tengdust fæðingunni eins og það er að finna þær jákvæðu.

Fæðingarreynslan breytir okkur og hefur áhrif á okkur. Fæðingarminningin er líklega ein sterkasta minningin okkar og það er afskaplega mikilvægt að hlúa að henni.

– – –

Soffía Bæringsdóttir er kennari, doula og burðarpokaspekúlant. Hún rekur vefverslunina www.hondihond.is sem selur bækur og burðarpoka. Hún hefur óbilandi áhuga á öllu sem tengist fæðingum og barnauppeldi.
Hægt er að hafa samband við Soffíu með tölvupósti á netfangið soffia@hondihond.is.

X