Loading

AÐ „FRUMSÝNA” LÍKAMANN

Það er sjálfsagt ekki tekið út með sældinni að vera Hollywood stjarna – ef litið er framhjá auðnum, einkaþjónunum, gullrugguhestinum og kristalsbaðkerinu. Ef maður veltir því fyrir sér er það stórmál. Þú mátt helst ekki stíga feilspor, verður að vera gríðarlega glæsileg – meira að segja á flugvöllum eftir tólf tíma flug og guð forði þér frá því að fitna eftir barnsburð!

Víkur þá sögunni að Beyonce Knowles sem að ól á dögunum sitt fyrsta barn. Heimsbyggðin hefur logað og á tímabili gengur þær sögur fjöllum hærra að hún vildi ekki skemma vöxtinn með því að ganga sjálf með barnið og því væri notast við leigumóður eða leiguleg. Neituðu þau hjónin þeim orðrómi staðfastlega enda ansi fáránlegur.

Nú, einungis mánuði síðar er hún búin að „frumsýna” vöxtinn og geta allir andað rólega. Beyonce hefur haldið vextinum og lagt sitt af mörkum til að viðhalda þeim ranghugmyndum að konur skreppi saman eins og gamlir lopasokkar að fæðingu lokinni. Eins og þá sé verkefninu lokið og eftirleikurinn sé ekki neitt. Við skulum hafa í huga að kannski er lífið ekki þannig hjá Beyonce. Kannski grætur hún sig í svefn yfir að láta stjórnast af þeirri vitleysu að þurfa alltaf að vera eins og nýsleginn túskildingur og íklædd átta lögum af Spanx aðhaldsbúningum hafi hún arkað fram á sjónarsviðið til þess eina að vera grennri og flottari en allar hinar konurnar – og einungis mánuði eftir keisaraskurð.

Og kannski ekki. Kannski er Beyonce bara þeim góðu genum gædd að ganga hratt smaman aftur og vera fljót að jafna sig. Nú veit ég ekkert um hvort hún er með barnið á brjósti eða ekki en venjan er sú að fyrstu skrefin í brjóstagjöfinni taka virkilega á – meðan líkaminn er að koma sér úr því að vera ófrískur yfir í að verða mjólkurbú, með tilheyrandi hormónahrókeringum, svitakófi, andvökunóttum og þar fram eftir götunum.

Gott og vel…

Og kannski er Beyonce bara í ruglinu og finnst hún mest, best og flottust og með aðstoð barnfóstra, einkaþjálfara (reyndar má ekki reyna neitt á magavöðvana svona stuttu eftir aðger enda er keisaraskurður ekki fæðingablettataka – þetta er holskurður þar sem konan er bókstaflega rist á hol), næringarráðgjafa og einkakokks. Kannski… og kannski gerir hún sér fullkomlega grein fyrir því að hún er vörumerki og ber skilda (samkvæmt markaðsöflunum) til að vera ætíð mest, best og flottust. Venjuleg vandamál eins og fæðinarskvap er ekki til í hennar orðaforða enda lýtalaus og æðisleg!

Ég get sjálfsagt tuðað um það í allan dag hvað þetta er óheilbrigt að hampa þessum stórkostlega árangri hennar og líkja því við heimsmet í 100 metra hlaupi. Slík skilaboð eru bæði hættuleg og röng – og venjulega konan, sem fer í venjulega keisaraskurðinn, er að berjast við að jafna sig og standa sig í móðurhlutverkinu, þarf hreinlega ekki á svona skilaboðum að halda.

Það tekur tíma að jafna sig eftir meðgöngu og fæðingu. Keisaraskurður er ekki einhver Hollywood-törfalausn til til að rifna ekki í klofinu. Það er meiriháttar aðgerð sem tekur langan tíma að jafna sig á. Um leið og ég óska Beyonce aftur til hamingju óska ég þess innst inni að hún hefði beðið aðeins lengur með að vera svona fjandi glæsileg því að einhversstaðar er einhver að horfa á mynd af henni í þessum töluðu orðum og skammast í hljóði yfir því að vera sjálf svona djöfulli feit og ómöguleg… og við hana langar mig að segja: „Hæ elsku þú! Vertu ánægð með sjálfa þig og leyfðu líkamanum að jafna sig í ró og næði. Þú átt það skilið – þú varst að framleiða heilamanneskju. Knús á þig.”

X