Loading

FISKIBUFF

Ragnheiður Eiríksdóttir matarbloggari skrifar:

Fiskibollur eru oft mjög vinsælar hjá yngri kynslóðinni og stundum eina leiðin til að fá þau til að borða fisk. En hvað eru fiskibollur? Hvað er í fiskibollum? Ég hef velt þessu fyrir mér og hef komist að þeirri niðurstöðu að heimalagaðar fiskibollur, eða í þessu tilfelli fiskibuff innihalda örugglega mun minna af aukaefnum en þessar tilbúnu bollur sem keyptar eru út í búð.

Fiskibuff
500 gr. fiskur
1 egg
2 msk. mjólk
1 dl. hveiti
¼ af lauk skorinn mjög smátt
Salt
Hvítur pipar
Hvítlauksduft

Best er að byrja að hræra saman eggið, mjólkina og kryddin. Skerið laukinn. Ég notaði mjög fínt rifjárn eitt skiptið sem var mun þægilegra og fljótlegra. Skerið síðan fiskinn eins smátt og þið nennið. Ef ég ætti matvinnsluvél þá myndi ég nota hana! Blandið lauknum og fiskinum saman við eggjablönduna og hrærið vel. Bætið hveitinu smátt og smátt saman við blönduna. Kannski er ekki þörf fyrir allt hveitið. Þegar öllu er blandað saman eru buffin steikt á miðlungs heitri pönnu með olíu. Það tekur ekki langan tíma að elda fisk og því þarf að fylgjast vel með buffunum svo þau ofeldist ekki eða brenni.
Að þessu sinni voru buffin borin fram með ofnsteiktum kartöflum,salati og kaldri jógúrtsósu. Þau eru einnig mjög ljúffeng með lauksmjöri og soðnum kartöflum, svona eins og amma gerði. 😉

Verði ykkur að góðu.

X