Loading

FORSJÁLNI OG FORSJÁ

Nú er árstími tímamóta. Margs konar fræðingar útskrifast úr háskóla, stúdentar úr framhaldsskóla og unglingar úr grunnskóla. Allir standa á tímamótum; þeir vita hvað er að baki en minna um það sem framundan er. Undanfarnar vikur hef ég farið yfir snúinn ákvörðunarferil með 16 ára dætrum mínum um val á framhaldsskóla. Ég lagði mig fram um að þær tækju sjálfstæða ákvörðun. Sýndi þeim fram á kosti og galla skólanna sem valið stóð á milli, fór með þeim í heimsóknir í skólana og gætti þess umfram allt að segja þeim ekki mína skoðun. Ég hélt að með því væri ég að fara eftir einhverjum óskráðum reglum um hvernig kenna eigi unglingum að taka sjálfstæða ákvörðun. Á elleftu stundu áttaði ég mig á að allt ákvörðunarferlið hafði ég ekki farið eftir þriðja Samskiptaboðorðinu: Hlusta. Ég hlustaði ekki á þær, veitti þeim ekki óskipta athygli og setti mig ekki raunverulega í þeirra spor – sýndi þeim ekki þá samkennd sem þær kölluðu eftir. En þegar ég svo fór raunverulega að hlusta á þær, gerði ég mér grein fyrir því að þó skoðanir annarra skipti þær miklu máli, eru það skoðanir mínar sem vega þyngst. Þær vita að ég þekki þær best, þær treysta mér og trúa því að ég muni vel fyrir þeim sjá. Þetta er gríðarleg ábyrgð. Þess vegna er mikilvægt að sýna fyrirhyggju, sjá fyrir afleiðingar stórra ákvarðana og gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem felst í því að vera myndugt foreldri.

Að sýna fyrirhyggju er góður eiginleiki. Gera sér grein fyrir því sem framtíðin ber hugsanlega í skauti sér án þess að vita raunverulega nokkuð um það, en vera samt reiðubúin til að takast hana á hendur. Þegar barn er í vændum fyllast náttborð verðandi foreldra af bókum um meðgöngu og fæðingu. Blogg og vefsíður eru lesnar til að fræðast um þessa reynslu sem framundan er og talað við reynslubolta, en þrátt fyrir að þeir geti auðveldlega lýst upplifuninni og reynslunni geta hinir óreyndari ómögulega sett sig nákvæmlega í þeirra spor. Því hver barnsfæðing er einstök og hvert barn einstakur ávöxtur einstakra foreldra. En með því að afla sér þekkingar sýna verðandi foreldrar forsjálni áður en forsjá ófædda barnsins verður raunveruleg.

Á sama hátt ber foreldrum að sýna forsjálni í uppeldi barna sinna. Auk þess að bera skilyrðislausan kærleika til barnanna sýna foreldrarnir mikilvægustu fyrirhyggjuna með eigin hegðun og framkomu. Við erum sjálf gangandi og talandi gagnvirk kennslubók fyrir börnin okkar – það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Ef börnin alast upp við neikvætt og niðrandi tal foreldranna um samferðamenn sína, tileinka þau sér sömu hegðun. Þó birtingarmynd eineltis sé ekki sú sama meðal barna og fullorðinna, endurspeglast samskipti fullorðinna í samskiptum barnanna. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar geri sér grein fyrir hlutverki sínu sem fyrirmynda; að foreldrar sýni forsjálni með framkomu sinni gagnvart bæði sínum börnum og annarra.

Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir dætur mínar. En ég óska þeim þeirrar hamingju og farsældar sem fæst með því að vera sjálfstæður og myndugur einstaklingur í samfélaginu okkar. Ef ég tileinka mér Samskiptaboðorðin og hlusta á þær með virkri hlustun; sérstaklega þegar þær standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, eflist sjálfsþekking þeirra og um leið sjálfstæði. Til að vera meðvituð um þetta þarf ég að afla mér þekkingar, vera reiðubúin að takast á við þær aðstæður sem foreldrahlutverkið býður mér uppá og gera mér grein fyrir því að ég er fyrirmynd.

Höfum í huga að forsjá barna er vel fyrir komið meðal foreldra sem tileinka sér forsjálni við uppeldi barnanna sinna.

– –

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir er hjúkrunarfræðingur að mennt og starfar sem slíkur á Vökudeild Barnaspítala Hringsins. Aðalbjörg býr í Laugarneshverfi í Reykjavík ásamt eiginmanni og fimm börnum á aldrinum ellefu til tuttugu ára, auk þess á eiginmaðurinn dóttur frá fyrra sambandi. Það má því með sanni segja að hún hafi helgað líf sitt börnum bæði faglega og persónulega. Starf hennar, áhugi og hugsjón beinist auk þess að því að draga fram og efla styrkleika fullorðinna í samskiptum þeirra við börn, og er þróun og útgáfa Samskiptaboðorðanna liður í því.

X