Loading

FORVARNIR GEGN HAUSTPESTUM

Pistill eftir Ebbu Guðnýju Guðmundsdóttur, höfund bókarinnar Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða?

Halló elskurnar!

Jæja, þá ætla ég að segja ykkur hvað hefur reynst mér vel þegar byrjar að hausta og pestir hellast í mannskapinn með tilheyrandi raski og leiðindum!

1. D-vítamín (mæli með fljótandi D-3 vítamíni, það er bragðlaust) er svo mikilvægt fyrir heilbrigt ónæmiskerfi, hormónastarfsemi, nauðsynlegt fyrir uppbyggingu beina og tanna (örvar frásog kalks í meltingarvegi) og hjálpar manni að vera glaður og kátur (fyrirbyggjandi áhrif við þunglyndi) enda er þetta sólskinsvítamínið. Við fáum D-vítamín úr sólinni og þegar hún fer minnkandi þurfum við að taka það inn. Á sumrin er snjallt að henda öllum út í um klukkustund (eða fara í sund) þegar sólin skín og engar sólarvarnir fyrstu 20-60 mínúturnar. (Fer eftir húðtýpum, þeir sem eru með ljósa húð þurfa miklu styttri sólarskammt til að fullnægja sínum D-vítamín skammti, jafnvel nóg 15 mínútur).

**Astaxathin er öflugt andoxunarefni unnið úr rauðum þörungum sem eru ræktaðir í ferskvatni. Það hjálpar ykkur að brenna síður í sólinni.. það styrkir náttúrulegar varnir húðarinnar gegn skaðsemi sólargeislanna. Þar að auki verður maður fyrr brúnn ef maður tekur inn astaxathin og heldur brúna litnum lengur. Það er einnig talið auka styrk og þol vöðva og vinna gegn hverskonar bólgum og eymslum.

2. Járn! Nægt járn stuðlar líka að heilbrigðu ónæmiskerfi. Járn er sá þáttur í blóðinu sem sér um flutning á súrefni og stjórnar þannig súrefnismagninu sem berst til vefja líkamans. C-vítamín eykur upptöku járns en kalk dregur úr henni. Merki um járnskort eru þreyta, lystarleysi, þunglyndi, minni athygli og einbeiting, skert líkamleg og andleg geta. Sum börn verða þó hálf ofvirk þegar þau vantar járn. Hægt er að kaupa járn í heilsubúðum sem á að fara vel í maga, betur en töflurnar. Ég mæli með Floravital og í apótekum mæli ég með Ferroglobin. Floravital er þunnur berjavökvi, geymist í kæli. Ferroglobin er þykkara (sætt með hunangi og er því ekki fyrir börn undir 1 árs) og minnir mig á sanasólið sem ég tók sem krakki. Geymið járnið þar sem börn ná ekki til. Járn í of stórum skömmtum getur verið lífshættulegt og börnum finnst þessir vökvar oft mjög góðir.

3. Ull og silki. Sjá glósuna mína um ull og silki – Ég klæði börnin mín ennþá í ull og silki og hef mikla trú á því að það hjálpi þeim að verða síður lasin.

4. Omega-3 fitusýrur. Þær eru magnaðar! Ég mæli með hampolíu einu sinni á dag (eða hörfæoliu), fiskiolíu úr heilsubúð eða lýsi einu sinni á dag og chia fræjum/graut (sjá vídeó á www.pureebba.com). Omega-3 fitusýrur stuðla að heilbrigðu ónæmiskerfi, hormónakerfi og heilbrigðum likama yfir höfuð. Þær smyrja okkur að innan og hjálpa húðinni til að vera heilbrigð og falleg og einnig hjálpa til við hægðalosun (sem og öll góð fita). Þær sjá til þess að taugafrumuhimnur starfi eðlilega og að boðin milli þeirra í heilanum fari eðlilega fram. Þær eru þannig taldar hafa mikil áhrif á einbeitingu, minni, tal og hryefiþroska. Þær stuðla líka að langtímaþreki og betra úthaldi þar sem þær bæta súrefnisnýtingu líkamans. Fitusýrur eru taldar örva starfsemi heila, efnaskipta og meltingu og draga úr vökvasöfnun og sætindafíkn. Þær verja smyrja ennfremur liðina okkar og verja þannig likamann fyrir áföllum.

5. Streita er eitur. Mikill þeytingur og læti, of mikið prógram sem og lítill svefn dregur úr heilbrigðu ónæmiskerfi sem og áhyggjur og kvíði. Að hugsa jákvætt, vera þakklátur og glaður fyrir það sem maður hefur og einbeita sér að öllu því góða í sínu lífi og í lífinu almennt í stað þess að einblína á allt það sem maður vildi hafa öðruvísi er snjallt og stuðlar að heilbrigðu ónæmiskerfi. Og þetta er hægt að kenna börnum. Þegar þau fara að röfla um þetta og hitt sem þau vilja eða þau vantar, eitthvað sem aðrir eiga og þau ekki (eða detta í einhverja sjálfsvorkunnarholu) er hægt að hjálpa þeim að sjá allt það góða í þeirra lífi, allt það sem þau geta verið svo þakklát fyrir og þannig koma inn hjá þeim þakklæti og gleði og kenna þeim sjálfshjálp um leið. Ég verð að láta fylgja með einn brandara af syni mínum. Það var kósíkvöld hjá okkur um daginn og bæði börnin mín höfðu vini sem gistu. Nú börnin mín eru oft fremur óþekk að fara að sofa, eða svona reyna að komast hjá því í lengstu lög sem getur verið ákaflega þreytandi!:).. og ég hef rætt þetta við þau oft. Nú þarna áttu svo allir að fara að sofa eftir kósíkvöldið og ég segi við Hafliða minn sem lá lengst frá mér – allir sváfu í flatsæng: ,,Hafliði minn er allt í lagi með þig elskan?” Þá heyrist í mínum manni: ,,Já, mamma, ég ætla bara að vera þakklátur fyrir kósíkvöldið og fara strax að sofa”… (m.ö.o. ekki launa mér kósíkvöldið með einhverju veseni:)

6. Acidophilus inniheldur góðu bakterírunar fyrir heilbrigða þarmaflóru sem aftur er forsenda þess að ónæmiskerfið sé heilbrigt og gott. Acidophilus er hægt að kaupa í hylkjum fyrir fullorðna, í dufti fyrir ungabörn og ung börn (braðglaust duft) og í tuggutöflum (góðar á bragðið) fyrir eldri börn sem geta tuggið en ekki gleypt.

7. Mamma og pabbi vita best og þeirra orð, hughreysting og snerting þeirra gerir líka kraftaverk. Aftur saga af syni mínum. Hann sagðist vera lasinn eitt kvöldið (hugsanlega að reyna að komast hjá því að fara að sofa, vildi að ég væri hjá honum). Sagðist vera illt í hausnum. Ég sagði að ég væri með töframeðal sem læknaði allt slíkt og náði í kókosolíu og lemongrass ilmkjarnaolíu. Setti 1 tsk af kókosolíu í lófann og 1 dropa af lemongrass út í og nuddaði höndunum saman og bar þetta svo á ennið hans og nuddaði aðeins hausinn og svo herðarnar og kyssti hann svo góðan nótt og sagði að nú myndi honum batna og hvað ég elskaði hann heitt og dagurinn á morgun yrði svo skemmtilegur, það væri ég handviss um… ég heyrði ekkert í honum meir, hann andvarðaði létt og sofnaði um leið.

Hjartans kveðjur í öll ykkar hús og vona að þessi skilaboð finni ykkur heilsuhraust og glöð.

Ykkar Ebba xx

Ebba Guðný Guðmundsdóttir er kennari að mennt en hefur undanfarin ár helgað sig næringu ungbarna og hollari lífsháttum allrar fjölskyldunnar. Hún gaf út bókina Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða? sem hefur reynst íslenskum foreldurm ómetanlegur fjársjóður í leitinni að hollari lífsháttum. Ebba heldur úti vefsíðunni pureebba.com þar sem hægt er að finna myndbönd og girnilegar uppskriftir.

X