Loading

FRÓÐLEIKUR UM BURÐARPOKA

Pistill eftir Soffíu Bæringsdóttur, kennara, doulu og burðarpokaspekúlant.

Ég er oft spurð hvernig burðarpoka fólk á að fá sér. Algeng spurning sem erfitt er að svara. Spurningin á móti er nefnilega hvernig burðarpoka ertu að leita að?

Hvernig burðarsjal eða burðarpoki verður fyrir valinu fer eftir því í hvað maður notar burðarpokann, við hvaða tækifæri, hve lengi, hvað barnið er gamalt og svo framvegis. Hér eru smá leiðbeiningar sem nýtast vonandi eitthvað.

Ef þú hefur aðallega hugsað þér að bera barnið fyrstu mánuðina er teygjanlegt sjal frábær fyrsti kostur. Teygjanlegu sjölin eru svo mjúk og kósý. Teygjanleg sjöl er líka mjög góð fyrsta burðargræja. Þegar barnið er orðið of stórt fyrir teygjanlega sjalið er um að gera að fá sér ofið sjal, Mei Tai eða formaðan burðarpoka.

Ef þú ætlar að kaupa þér eina burðargræju og vilt nota hana frá fæðingu til þriggja ára er ofið sjal, Mei Tai eða formaður burðarpoki það besta í boðinu.

Ofið sjal er gott frá fæðingu og fljótlega hægt að nota það til að binda á bakið eða við mjöðm. Ofið sjal krefst þess að maður æfi sig svolítið og það þarf alltaf að vefja það um sig sem sumum finnst vera bras. Ofin sjöl eru mislöng en 4.6 nýtst flestum í allar bindingar en styttri sjöl hafa líka sinn sjarma, sérstaklega ef maður á annað sjal fyrir.

Formaður burðarpoki er svolítið stór og klunnalegur fyrstu mánuðina en verður betri þegar líður á og er frábær frá c.a. fjögurra mánaða til þriggja ára og jafnvel lengur. Formaður burðarpoki er svona smella smella af stað græja sem er mjög þægilegt en það er lítið hægt að breyta þeim. Formuðu burðarpokarnir eru góðir útipokar sem veita góðan stuðning í lengri göngum.

Mei Tai er ferningur með löngum efnisbútum sem hægt er að nota frá fæðingu en þeir verða ekki virkilega góðir fyrr en um fjögurra fimm mánaða líkt og formuðu burðarpokarnir. Kosturinn við Mei Tai-ið er að það er auðvelt og fljótlegt að setja það á sig, þau eru létt og fljótlegt að aðlaga þau ólíku burðarfólki.

Ef þú ert með barn á aldrinum 4-12 mánaða og ætlar að kaupa þér fyrstu burðargræjuna þína eru bestu kaupin ofið sjal, Mei Tai eða formaður poki. Barnið er orðið það gamalt að teygjanlegt sjal endist stutt og verður ekki jafn þægilegt því það gefur eftir.

Ef þú ætlar að bera barnið stutt t.d. þegar þú ert að versla, sjal sem þú ert fljót að setja á þig og taka af er hringjasjal góður kostur. Hringjasjalið er líka hægt að nota í bakburð og framan á sér ef svo ber undir en eru kannski ekki góð fyrir lengri burð og ef fólk er viðkvæmt í baki.

Ef þú ert með barn sem er orðið eins árs er Mei Tai eða formaður burðarpoki besti kosturinn. Sífellt fleiri burðarpokaframleiðendur bjóða nú upp á burðarpoka sem eru sérstaklega ætlaðir börnum eins árs og eldri.

Það mikilvægasta í vali á burðarpoka/sjali er að velja eitthvað sem manni finnst flott og þægilegt, fellur vel að burðarmanni og barni og styður undir náttúrulega stöðu barnsins.

– – –
Soffía Bæringsdóttir er kennari og doula og burðarpokaspekúlant. Hún rekur vefverslunina www.hondihond.is sem selur bækur og burðarpoka. Hún hefur óbilandi áhuga á öllu sem tengist fæðingum og barnauppeldi.
Hægt er að hafa samband við Soffíu með tölvupósti á netfangið soffia@hondihond.is.

X