Loading

FYRSTU MÍNÚTURNAR EFTIR AÐ BARNIÐ FÆÐIST

Við höfum líklega flest heyrt, hvort sem við eigum börn eða ekki, að ekkert jafnist á við fyrstu mínúturnar beint eftir fæðingu, að fá barnið sitt beint í fangið, vera loksins komin með þennan litla einstakling í hendurnar sem maður hefur beðið svo spenntur eftir.

Fyrir mér eru það ekki allra fyrstu mínúturnar sem eru bestar. Fyrstu mínúturnar í mínum huga þýða að bíða og hlusta hvort barnið gráti ekki örugglega. Af hverju grætur barnið ekki? Er ekki örugglega allt í lagi? Sérðu hann? Andar hann örugglega? Að líða svolítið eins og áhorfanda en ekki þáttakanda, en samt áhorfanda sem sér ekki neitt og verður að treysta á að geta spurt maka, og fleiri á skurðstofunni útí barnið sem er jú fætt og maður fékk að sjá í þrjár sekúndur áður en farið var með það á barnaborðið.

Svo fær pabbinn að fara að borðinu til að kíkja á litla gullið og þá liggur maður þarna einn eftir á skurðarborðinu svolítið „Palli var einn í heiminum” fílingur og það eina sem maður heyrir eru samræður læknanna. Það eina sem ég hugsa er að ég vildi að þeir myndu drífa sig aðeins meira, finnst eins og það taki heila eilífð að sauma mann aftur saman. Vitneskjan um að um leið og þeir verði búnir fái maður að fara á vöknun og fái að halda á barninu sínu gerir biðina ekki skárri, og mér fannst án gríns eins og þeir væru svona tvo klukkutíma að klára að sauma mig saman, ég veit samt að það tók ekki svona langann tíma, en hversu langan það tók veit ég samt ekki.

Pabbinn kom nú samt með strákinn og sýndi mér hann á meðan ég lá þarna og beið eftir að þeir kláruðu að sauma, og ég hefði mátt fá hann á bringuna ef ég hefði viljað. En ég prófaði það með eldri strákinn og þá leið mér eins og ég væri að kafna svo ég ákvað að bíða frekar eftir að ég kæmist inná vöknun og gæti setið aðeins meira uppi.

Ég var samt mjög heppin með báða strákana mína, þeir þurftu hvorugur að fara á vöku eins og stundum vill verða eftir keisara, og ég fékk þá í fangið strax inná vöknun og þurfti ekkert að láta þá frá mér. Nógu erfitt fannst óþolinmóðu mér að þurfa að bíða eftir að geta fengið þá í fangið!

– –

Ég heiti Sif Hauksdóttir og er 24 ára, ég á tvo yndislega og orkumikla drengi, sá eldri er fæddur í september 2009 og sá yngri í október 2010. Ég er heimavinnandi húsmóðir með þann yngri þangað til hann kemst á leikskóla en eftir það eru engin plön, ég hef nefninlega ekki ennþá komist að því hvað mig langar að verða þegar ég verð stór!

X