Loading

GLEYMDI ÉG BARNINU HEIMA?

Pistill eftir Björk Eiðsdóttur, blaðamann, móður og snilling með meiru…

Hvernig gengur þetta eiginlega upp?

Er spurning sem ég fæ mjög reglulega og er þá verið að vísa í að ég er ein með þrjú börn, þar af tvö sem eiga föður sem býr og starfar erlendis og fáum við því ekki að njóta hinna margrómuðu pabbahelga.

Svarið mitt er iðulega: „Bara eiginlega ekki…“ Þá á ég kannski ekki við að allt sé í hers höndum heima fyrir og börnin gangi sjálfala um götur borgarinnar með hrökkbrauð með smjöri í bakpokanum, heldur að það sitji alltaf eitthvað á hakanum og á hverjum degi sé eitthvað sem hefði mátt fara betur.

Um daginn brunaði ég eins og vanalega úr vinnunni til að sækja soninn í leikskólann, eins og oftast á síðustu stundu… Þegar ég kom inn á deildina kom enginn gutti stökkvandi í fangið á mér eins og vaninn er og ég leit í kringum mig og svo á leikskólakennarann sem stóð fyrir framan mig og spurði kæruleysislega: „Hvar er barnið mitt?“ Hún horfði forviða á mig og svaraði: „Hann hefur ekkert komið hingað í dag.“ Ég fann kaldan svita renna niður bakið og hjartslátturinn ætlaði upp úr öllu valdi: „Ætli ég hafi gleymt barninu heima í morgun?“ Ég sá litla fimm ára krílið fyrir mér borðandi þurrt Cheerios, að dunda sér við að prófa stillingarnar á eldavélinni, stilla sjónvarpsstöðvarnar og sveifla sér í ljósakrónunni undanfarnar níu klukkustundir. En þá rann upp fyrir mér ljós: Hann hafði gist hjá ömmu sinni sem hafði boðist til að leyfa honum að eiga „ömmudag“ og fá frí í leikskólanum. Mamman var samt á „auto-pilot“ að bruna úr vinnu og í leikskóla og svo heim eins og vanalega. Mikið var ég fegin þegar ég áttaði mig, leikskólakennarinn brosti út í annað þegar ég útskýrði stöðuna, örugglega rétt eins og hún reyndi af veikum mætti að gera þegar ég gleymdi foreldraviðtali í annað skiptið í röð… En svona er þetta bara, það er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn, stundum er ég bara alveg innilega sammála, þorpið mætti alla vega minna mig á eitt og annað öðru hvoru (eins og t.d hvar ég skildi krakkann eftir).

– – –
Björk Eiðsdóttir hefur starfað við íslenska fjölmiðla undanfarin fimm ár, þá bæði tímarit og sjónvarp eftir að hafa menntað sig í fjölmiðlafræði í Bandaríkjunum. Hún er sjálfstæð móðir þriggja sjálfstæðra barna á aldrinum fimm til fjórtán ára. Hún segist vita að það er hægt að gera allt með fjölskyldu eftir að hafa farið í gegnum háskólanámið með tvö kríli og eignast það þriðja á útskriftarönninni. „Það er allt hægt en það getur kostað svita og puð þó oftar sé þetta gaman og síðast en ekki síst er um að gera að taka lífinu létt, hlæja að öllum mistökunum og halda áfram.”

X