Loading

GLÖÐ MAMMA ER GÓÐ MAMMA

Það skýtur líklega skökku við að eftir að ég varð ein með þrjú börn hef ég gert meira fyrir sjálfa mig en nokkru sinni áður þótt tíminn hafi aldrei verið minni. Ég hef oft leitt hugann að þessu og komist að þeirri niðurstöðu að ég lærði að forgangsraða og um leið setja sjálfa mig framarlega í röðina.

Ég er nefnilega fullviss um að glöð mamma er góð mamma. Ég gæti vissulega fórnað öllu því sem mig langar að gera bara fyrir sjálfa mig og einbeitt mér að móðurhlutverkinu alla daga utan vinnutíma, haft heimabakað í alla kaffitíma og heimilið alltaf spikk og span. En ég er ansi hrædd um að börnin mín myndu senda mig í sveit eftir nokkra geðstirða daga og brennt bakkelsi.

Með þessa hugsun mína að leiðarljósi geng ég fjöll með vinkonum mínum, fer í ferðalög, mæti í ræktina og fer reglulega í happy hour og hlæ hátt og mikið. Oft er þetta púsl og kostar stundum smá svita en er jafn nauðsynlegt fyrir vikið. Ekki svo að skilja að ég geri ekkert með ungviðinu, það er líka mikilvægt og skemmtilegt. En það þarf að viðra þessar mömmur aðeins ef þær eiga að geta gefið af sér auk þess sem ég hef talið mér trú um að þannig sé ég þessum ungu einstaklingum góð fyrirmynd. Einmitt þess vegna hef ég tekið þann pól í hæðina að telja t.d samverustundir barna minna með ömmum sínum og öfum ekki sem pössun, það eru einfaldlega fjölskyldustundir því fjölskylda þeirra er meira en bara ég og ég er ekkert eins ómissandi og ég hef oft haldið. Á meðan er ég í viðrun með vinkonunum og kem mun betri til baka, endurnærð, glöð og góð og alls ekkert svo ómissandi né svo agalega fórnfús!

– –
Björk Eiðsdóttir hefur starfað við íslenska fjölmiðla undanfarin fimm ár, þá bæði tímarit og sjónvarp eftir að hafa menntað sig í fjölmiðlafræði í Bandaríkjunum. Hún er sjálfstæð móðir þriggja sjálfstæðra barna á aldrinum fimm til fjórtán ára. Hún segist vita að það er hægt að gera allt með fjölskyldu eftir að hafa farið í gegnum háskólanámið með tvö kríli og eignast það þriðja á útskriftarönninni. „Það er allt hægt en það getur kostað svita og puð þó oftar sé þetta gaman og síðast en ekki síst er um að gera að taka lífinu létt, hlæja að öllum mistökunum og halda áfram.”

X