Loading

GÓÐ RÁÐ FRÁ EBBU

Pistill eftir Ebbu Guðnýju Guðmundsdóttur, höfund bókarinnar Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða?

Kæru vinir.
Mig langaði að nefna tvennt sem ég elska mikið og kaupi ávallt:

1. Lífræna jógúrtin og mjólkurafurðir:

Lífræn jógúrt er jógúrt búin til úr gerilsneyddri, ófitusprengdri mjólk. Mjólkin er vottuð lífrænt framleidd af vottunarstofunni Tún. Kýrnar sem gefa mjólkina í jógúrtina fá ekkert korn (kjarnfóður) aðeins gras og þörungamjöl (sem er það sem kusum er ætlað að borða). Lyfjanotkun er haldið í algjöru lágmarki og er velferð þeirra tryggð með góðum húsum, nægu rými og möguleikum á útiveru árið um kring. Skiptiræktun og stjórnun beitarálags tryggir verndun jarðvegs og gróðurs.

Lífræna jógúrtin inniheldur fjölómettuðu fitusýrurnar Omega-3 og CLA. Mjólkurfitunni fylgja einnig fituleysanlegu vítamínin A, E, D og beta-carotin. Af þeim ástæðum er hún ekki fituskert því þá yrði hún snauðari af þessum annars hollu næringarefnum. Jógúrt inniheldur auk þess prótein, kalk og steinefni. Lífræn jógúrt er framleidd án allra hjálparefna utan lífræns hrásykurs sem notaður er í lífræna jógúrt m eð ávöxtum. Ávextirnir eru lífrænt ræktaðir.

Margir sem eru með mjólkuróþol (athugið ekki ofnæmi!) þola samt sem áður hreint smjör og rjóma í hóflegu magni. Ég sjálf borða lítið sem ekkert af mjólkurvörum en hef alltaf borðað smjör og rjóma í hófi og elska það!:)

“In fact, people eating the most high-fat dairy products had a whopping 69% lower chance of dying from heart disease than those eating the least.”
Sjá HÉR.

2. Brauðin frá Brauðhúsinu í Grímsbæ:

Þar er hægt að fá gerlaus aukaefnalaus brauð úr heilu lífrænu korni sem er malað á staðnum á hæggengar steinkvarnir til að næringin varðveitist sem best! Það verður ekki ferskara eða hollara en það. Flest þeirra eru súrdeigsbrauð en það gerir kornið auðmeltara fyrir okkur og steinefnin í korninu aðgengilegri fyrir kroppinn að nýta sér. Þeir baka þar að auki glúteinlaus brauð! Einnig er hægt að fá brauð með geri í fyrir þá sem það vilja. Síðast en ekki síst selja þeir kökur og fleira bakkelsi úr lífrænu hráefni (smjör, reyrsykur, spelt osfrv) þar sem allt er bakað á staðnum. Ég fer gjarnan og kaupi nokkur niðurskorin brauð í einu og frysti. Mér finnst þau dýrðleg!

Nálgast má viðtal við Brauðhúsið HÉR.

– – –
Ebba Guðný Guðmundsdóttir er kennari að mennt en hefur undanfarin ár helgað sig næringu ungbarna og hollari lífsháttum allrar fjölskyldunnar. Hún gaf út bókina Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða? sem hefur reynst íslenskum foreldurm ómetanlegur fjársjóður í leitinni að hollari lífsháttum. Ebba heldur úti vefsíðunni pureebba.com þar sem hægt er að finna myndbönd og girnilegar uppskriftir.

X