Loading

GÓÐA NÓTT MAMMA

Undirrituð fór inn á heimili um daginn þar sem börnin fóru bara þeygjandi og hljóðlaust að sofa. Þau fór án þess að röfla inn á baðherbergi til að bursta tennur, inn í herbergi til að klæða sig í náttfötin og svo skriðu þau bæði upp í rúm til að lesa bók og sofnuðu. Svona er þetta víst oftast nær á þessu heimili sem ég kíkti í heimsókn á og ég get ekki annað en viðurkennt hvað ég öfunda þá foreldra.

Svona er þetta nefnilega oftast nær ekki á þessu heimili. Jújú, þeir fara svo sem án mikils tuðs í náttfötin og í tannburstunarverkefnið en ekki beint hljóðlaust (reyndar eru þeir sjaldnast hljóðlausir). Synir mínir deila herbergi og koju, synir mínir þurfa aldrei meira að segja mér frá öllu mögulegu en fyrir háttinn, synir mínir eru líka sjaldan eins svangir og þegar upp í rúm er komið og synir mínir taka sinn klukkutíma í háttatímann. Sniðugast væri eflaust að láta þá fara að sofa á sitthvorum tímanum, leyfa eldri drengnum að vaka örlítið lengur en þeim yngri en málið er að sá eldri þarf heldur meiri svefn en sá yngri. Ekki er í boði að leyfa þeim yngri að vaka lengur en hinum, þá yrði allt brjálað.

Heldur hefur bæst í hressleikann á háttatíma síðastliðið árið eða svo, áður fyrr var nóg ef maður náði þeim eldri til að hætta að tala í augnablik (hann hefur mikla blaðursþörf) og þá var hann sofnaður. Nú er meira vit komið og heldur bæst í tuðið og suðið. Og það er yfirleitt sá eldri sem heldur vöku fyrir hinum yngri. Eldri sonurinn er mikill sjarmur og gefst aldrei upp, hann er líka snillingur sem ætti að halda námskeið í tuði og suði fyrir hina sem eru ekki jafn vel að sér í þeim málum og hann. Einu sinni var hann voða lasinn, þessi elska, og hafði ekki hleypt nokkrum mat ofan í sig og litlum vökva. Hann vaknaði um nóttina og bað um kókómjólk, ég ákvað að gefa honum bara þessa kókómjólk sína. Ég hugsaði bara hvaaa … það getur ekki verið svo voðalegt. Nei, næstu mánuði vaknaði hann upp á hverri nóttu og bað um kókómjólk og suðaði í kortér, eftir eitt skipti!

Ég hef prófað allt sem ég hef lesið mér til um, umbunarkerfi ýmiskonar, taka dót, taka uppáhaldshlutina, lofa samverustundum þegar vel tekst og svo framvegis og framvegis. Hingað til hefur ekkert virkað lengur en nokkrar nætur.

Æ, þetta hljómar nú kannski ekki nógu vel. Sum kvöld eru ekkert mál og ganga smurt fyrir sig, stundum er þetta bara eins og á hverju öðru draumaheimili. En erfiðir háttatímar taka hressilega á mig og stend ég mig að því annað veifið að segja „plís – farið að sofa“. Helstu ráðin sem ég hef fengið, eftir að hafa útskýrt hvað ég hef nú þegar reynt, er að gefast ekki upp, sýna þolinmæði og reyna að halda kúlinu, þetta komi á endanum.

Ég er handviss um að synir mínir munu einn daginn fara möglunarlaust að sofa á hverju kvöldi, eða svo gott sem. Ég veit það bara. Ég viðurkenni líka að þegar ég sit núna við tölvuna eftir heldur erfitt kvöld þá viðurkenni ég að ég hlakka mikið til þessa kvölds, kvöldsins þar sem háttatíminn gengur hljóðlega yfir.

– – –
Halldóra Anna Hagalín hefur starfað síðastliðin sex ár við ýmislegt tengt tímaritum. Hún hefur ritstýrt fótboltablaði, ferðablaði, sinnt vefmálum og markaðsmálum en starfar í dag sem ritstjóri unglingablaðsins Júlíu, fríblaðsins Heilsunnar og sem vefstjóri Birtíngs útgáfufélags. Henni finnst, að eigin sögn, best að hafa nóg fyrir stafni og kann vel að meta þann fjölbreytileika sem lífið hefur upp á að bjóða. Hún er þrítug sjálfstæð móðir með tvo hressa drengi sem eru fimm ára og á áttunda ári.

Ljósmynd: Rakel Ósk Sigurðardóttir

X