Loading

GÓÐUR BARNALÆKNIR

Góður barnalæknir lykilatrið í uppeldi barna!

Ég var búin að skrifa um 10 heilræði til foreldra hér á mömmublogginu en lofaði ykkur líka framhaldi á heilræðum, enda markmið mitt með þessu pári að fjalla um eitthvað sem hefur gefist vel í uppeldi minna barna, eitthvað sem mögulega gæti nýst ykkur hinum líka. Hér er þá komið að næsta atriði; Það að hafa góðan barnalækni er lykilatriði í uppeldi minna barna!
Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn var ég búin að sjá fyrir mér heilbrigðan, fallegan og brosmildan glókoll. Og ég fékk það sem ég óskaði mér og vel það, drengurinn var fullkominn í mínum augum og þroskaðist eðlilega. En um 4 mánaða aldur fór að bera á kvefi, síendurteknum eyrnabólgum, lungnabólgu og astma hjá honum og ég var oft með hann hjá læknum. Einu sinni sem oftar, þegar drengurinn var um 8 mánaða og mikið veikur, hitti ég lækni á barnalæknavaktinni í Domus Medica sem sagði við mig að í ljósi síendurtekinna veikinda skyldi ég íhuga það að fara að velja mér einhvern einn barnalækni til að vera með drenginn hjá til þess að það yrði samfella í umönnun hans. Með því að vera að fara á milli lækna með hann væru líkur á að erfiðara reyndist að ná heildarmynd af veikindum hans. Hann ráðlagði mér að velja þennan lækni vel, velja einhvern sem ég treysti og gæti hugsað mér að eiga samskipti við til lengri tíma, enda ljóst að drengurinn myndi líklega þurfa áframhaldandi eftirlit og meðferð á þessum tímapunkti. Mjög gott ráð til foreldra með fyrsta barn sem ekkert vita um heilbrigðisþjónustu barna! Ég var búin að hitta nokkuð marga barnalækna í húsinu, sem og barnalækna annars staðar í bænum, og hafði alltaf fengið mjög góða þjónustu hjá þeim öllum, því var úr vöndu að ráða. En skemmst er frá því að segja að ég fór heim, hugsaði málið vel og valdi síðan að vera hjá þessum sama lækni með barnið mitt og hafði gefið mér þetta góða ráð fyrr um daginn. Hann hefur allar götur síðan reynst mér afskaplega vel og er ofsalega laginn við börnin. Hans bestu meðmæli eru samt líklega þau að börnin biðja mig um að fara með sig til hans ef þau eru veik! Ég vil því ráðleggja foreldrum sem eru í sömu sporum með börnin sín og ég var á sínum tíma með drenginn, að velja sér fyrr en síðar einn barnalækni til að sjá um börnin ef þau eru veik. Veljið einhvern sem þið treystið og kunnið við, einhver sem hlustar, einhvern sem þorir að taka af skarið, einhvern sem er tilbúinn að leita sér annars álits eða ráðlegginga ef þarf og hefur ykkar persónulega og einstaklingsbundna hag að leiðarljósi í þjónustu sinni við ykkur, hvar sem þið búið, hérlendis sem erlendis. Það að hafa þennan ákveðna lækni fyrir mín börn hefur skipt miklu í uppeldinu og því læt ég ráðið góða ganga áfram til ykkar ef ske kynni að þið gætuð nýtt ykkur það.

Með bestu kveðju,
Ingunn Ásta.

– – –
Ingunn Ásta er með BA próf í uppeldis- og menntunarfræðum sem og kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskólum. Þá sér hún ásamt annarri frábærri mömmu um foreldra- og ungbarnamorgna í sinni heimakirkju og er félagi í foreldrafélagi á leikskóla barna sinna. Hún á 3 börn 3ja ára og yngri og hefur mikinn áhuga á öllu sem kemur að uppeldi og menntun barnanna okkar. Markmiðið með blogginu mun verða að fjalla almennt og fræðilega um allt mögulegt sem snýr að lífi, þroska og uppeldi barna þannig að það gagnist öðrum foreldrum í foreldrahlutverkinu.

X