Loading

Góðvinkona mín hún Gurra Grís

Barnaefni er mis skemmtilegt og ég er rosalega ‘picky’ á barnaefni. Ekki endilega bara á umfjöllunarefni heldur aðallega hvað ég meika að hafa í gangi heima hjá mér. Ég þoli til dæmis ekki hana Dóru. Mér hefur alltaf fundist hún óþolandi alveg bara frá því að þetta kvikindi kom fyrst í sjónvarpið löngu áður en ég eignaðist barn. Þannig að hvorki Dóra né Diego frændi hennar eru spiluð á mínu heimili og heldur ekki Skoppa og Skrítla, því þær fara alveg rosalega í taugarnar á mér. Ég ætla ekki einu sinni að byrja á að skrifa um Teletubbies en ég er mjög fegin að þeir eru ekkert voða vinsælir ennþá. Auðvitað má dóttir mín alveg horfa á þetta barnaefni sem pirrar mig EN á meðan hún veit ekki að þetta pirrandi efni er til er ég voða ánægð.

Svo er til allskonar barnaefni sem… tja meikar ekkert sens! Eins og þessir ágætu Kúlugúbbar á RÚV. Stelpan hefur mjög gaman af þeim enda allt voða litríkt þáttunum og svo syngja þeir alltaf einhver lög og það er allt ofsa gaman. EN ok þetta eru svona „hafmeyjur” – einhverskonar lítil kríli með sporð og þau búa í sjónum því þarna eru fiskar og allskonar sjávardýr en það snjóar þarna og margt annað mjög dularfullt gerist sem er ekki hægt ofan í sjónum. Svo er gróðurinn og annað mjög svipað og gróður á landi, það er eiginlega enginn svona hefðbundinn sjávargróður, bara venjuleg tré og gras. Af einhverjum ástæðum pirrar það mig MJÖG mikið hvað það er allt asnalegt þarna og mig klæjar í heilann við að horfa á þetta stundum. En allt í góðu, barnaefni þarf ekki endilega að meika sens. Þetta er ævintýra heimur þar sem snjóar í sjónum. Ég reyni bara að sætta mig við það.

Barnaefnið getur alveg verið besti vinur manns á ákveðnum tímapunktum því börn eru miklir morgunhanar og um helgar er voða þægilegt að kúra með þeim í sófanum á meðan þau stara dáleidd á skjáinn.

Svo er þetta hjálpartæki kannski stundum ofnotað en eftir erfiðan vinnudag er voða kósý að setja Gurru grís (Peppa pig) í gang og liggja í sófanum meðan daman dundar sér. Hún er ekkert alltaf að horfa á þetta en ef þetta er í gangi þá minnkar rápið á henni þannig að hún er ekki jafn mikið að vesenast inni í eldhús eða að heimta að fá að setja í þvottavélina.

Svo er hún Gurra grís líka bjargvætturinn minn á morgnanna þegar ég er að greiða henni. Hún tók nefnilega allt í einu upp á því að vera með vesen þegar ég var að greiða henni og harðneita að láta greiða sér. Ég kenni „terrible two’s” um þetta – ekki spurning! Í nokkur skipti virkaði að finna kisu vídeó á YouTube þar sem hún er kisu sjúk en hún fékk leið að þeim og síðan þá hefur Gurra grís bjargað málunum. Hún situr alveg kjurr og horfir á grísinn í spjaldtölvunni og ég má gera hvað sem er við hárið á meðan. Dóttir mín er nefinlega með svona hár sem þarf að greiða það er svo fíngert og flækist svakalega auðveldlega. Eftir nóttina þá er það einn flókabolti og hún lítur alltaf út eins og lukkutröll og ég bara get ekki sent hana út úr húsi þannig þó það hafi nú alveg komið fyrir.

Svo eitt enn með hana Gurru grís en ég hef lúmskt gaman af henni. Kannski er ég bara búin að horfa of mikið á þetta með stelpunni. Mér finnst bara svo fyndið hvað þetta er algjör svona steríótýpu fjölskylda, nema að eru náttúrulega svín! Það er mamma grís, pabbi grís, Gurra og Georg litli bróðir. Auðvitað er pabbinn svoldið mikill kjáni stundum og er ekkert alltaf að hlusta á mömmu grís séstaklega ekki þegar á að biðja afa grís um aðstoð og Gurra er svona tíbísk stóra systir sem er oftast ofsa góð við litla bróður sinn en er líka svoldið að stríða honum stundum. Ég flissa allavega stundum þegar hún er að horfa á þetta, sérstaklega yfir fullorðna „fólkinu” í þessu. Þetta er líka svo fín teiknimynd fyrir akkúrat hennar aldur, tæplega tveggja ára, því þetta er frekar einfaldur söguþráður plús það að það er sögumaður sem bendir manni á hvað er að gerast svo það fari nú ekki framhjá manni. Svo er hver saga er svo stutt að stelpan nær alveg að fylgjast með án þess að fá leið á því. Gurra grís er því mikil vinkona okkar. Eini gallinn er kannski að við erum frekar mikið að horfa á hana Gurru á ensku á Netflix eða YouTube en við eigum bara einn DVD á íslensku sem ég fann á einhverjum jólamarkaði í Hagkaup fyrir jólin og keypti því þetta leit út eins og eitthvað skemmtilegt fyrir litla stubba og nú getum við bara ekki verið án hennar Gurru.

Anna Sigrún

– – –

Ég heiti Anna Sigrún og er 28 ára. Ég á eina dóttur sem heitir Freyja og er fædd þann 1. maí 2015 og síðan er lítill drengur væntanlegur í heiminn í lok mars. Ég hef verið gift í þrjú ár en við höfum verið saman síðan 2009.

Ég bý og vinn í Breiðholti, er að vinna á leikskóla í augnablikinu en það styttist í að ég fari í veikindaleyfi á síðustu vikum meðgöngunnar og við tekur svo fæðingarorlof. Helstu áhugamál mín eru barnauppeldi og barnamenning, förðun, ljósmyndun, DIY stúss og falleg hönnun. Ég hef MJÖG gaman af því að versla og skoða allskonar sniðugt á netinu og svo er ég með skipulagsdellu! Ég er mjög dugleg að búa til allskonar lista og skipulag yfir hvernig er best að skipuleggja hitt og þetta…en ég er ekki alveg jafn góð í að fylgja þeim, sérstaklega innan veggja heimilisins.

– – –

Langar þig að verða bloggari?
Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt?
Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Við ætlum að endurvekja okkar stórskemmtilega MÖMMUBLOGG og erum að leita að vel skrifandi og áhugaverðum foreldrum til að deila sögum úr lífi sínu.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora(hjá)foreldrahandbokin.is

X