Loading

HÆTT AÐ GANGA Í BUXUM

„Ég er hætt að ganga í buxum,” æpti þriggja ára dóttir mín á mig í síðustu viku en bætti svo við „nema á mánudögum.” Ég taldi upp á tíu í huganum og samþykkti á endanum að leyfa henni að ráða þessu sjálf. Það varð úr að hún mætti í leikskólann í fjólubláu tjullpilsi, götóttum sokkabuxum og glimmerstráðum Hello Kitty bol. Í huganum þakkaði ég fyrir að faðir þeirra skutlaði þeim í skólann en ekki ég.

Þetta buxnavesentímabil er búið að standa yfir í nokkrar vikur. Þar sem mér finnst fátt leiðinlegra en að rífast við dóttur mína höfum við reynt að miðla málum – svo svakalega reyndar að mér finnst stundum eins og ég ætti að sjá um friðarviðræður í Sýrlandi – svo mikil er stillingin sem ég þarf að sýna. Einn morguninn fékkst hún bara ekki til að fara í buxur – sama hvaða nafni þær kölluðust. Sokkabuxur og nærbuxur voru þar á meðal og það var ekki fyrr en ég gaf eftir og setti hana berrassaða út í bíl að hún sá að ég hafði haft rétt fyrir mér þegar ég benti henni góðfúslega á að henni yrði að öllum líkindum nokkuð kalt.

Eftir að hafa rætt þetta við nokkrar vinkonur kom í ljós að þetta er víst nokkuð algengt meðal stúlkna. Ekki veit ég hvað veldur en þetta er bráðfyndið þegar út í það er farið. Einn pabbinn gafst endanlega upp og fór alltaf með sína stúlku á nærbuxunum í skólann og lét buxurnar fylgja með í poka. Það fannst mér fyndið og ætlaði að leika það eftir nema að mín gafst upp út af áðurnefndum kulda.

Mér skilst að þetta líði hjá… en í millitíðinni leita ég ljósum logum af fallegum kjólum til að bjóða henni upp á og er jafnframt löngu hætt að bjóða henni að fara í buxur… nema á mánudögum.

 

X